Forsætisráðuneytið

Skipun stýrihóps um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi

Forsætisráðherra mun skipa stýrihóp um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi í kjölfar umfjöllunar í ráðherranefnd um jafnréttismál og ríkisstjórnar í morgun.

Fulltrúi forsætisráðherra stýrir hópnum og starfsmaður dómsmálaráðuneytisins, sem vinnur að innleiðingu nýrrar aðgerðaáætlunar um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins, verður varaformaður hópsins.

Stýrihópurinn mun fylgja eftir hinni nýju aðgerðaáætlun, með hliðsjón af sáttmála ríkisstjórnarinnar, og undirbúa gerð áætlunar í samstarfi við sveitarfélögin um að útrýma kynbundnu ofbeldi, ekki síst stafrænu kynferðisofbeldi. Jafnframt er stýrihópnum ætlað að fylgja því eftir að Istanbúl-samningurinn um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi verði fullgiltur. Þá er hópnum ætlað að hafa yfirlit yfir og samræma vinnu hópa sem skipaðir hafa verið á mismunandi sviðum innan stjórnsýslunnar undanfarið í tilefni af „metoo“ umræðunni svonefndu.

Stýrihópurinn skal skila yfirliti yfir stöðu framangreindra verkefna og eftir atvikum tillögum um úrbætur og verkefni til ráðherranefndar um jafnréttismál eigi síðar en 1. september 2018.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn