Hoppa yfir valmynd
2. febrúar 2018 Forsætisráðuneytið

Verkefnisstjóri stjórnarskrárendurskoðunar

Unnur Brá Konráðsdóttir - mynd
Forsætisráðherra hefur falið Unni Brá Konráðsdóttur að vera verkefnisstjóri vinnu við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Í áætlun sem forsætisráðherra hefur kynnt um fyrirkomulag stjórnarskrárvinnu næstu árin segir: „Verkefnisstjórinn hefur heildaryfirsýn yfir verkefnið og tengir saman helstu aðila sem að því koma. Hann er málsvari verkefnisins og leitast við að tryggja skilvirkan framgang þess. Hann starfar í umboði forsætisráðherra, er tengiliður milli ráðherra og sérfræðinganefndar og nýtur aðstoðar skrifstofu löggjafarmála í forsætisráðuneytinu.“ Framangreind sérfræðinganefnd verður sett á laggirnar í samráði þeirra flokka sem fulltrúa eiga á Alþingi.

„Það er mikill akkur í því að fá reynslumikinn lögfræðing með bakgrunn úr stjórnmálum, sem þar að auki nýtur trausts þvert á flokka og í samfélaginu, til að stýra þessu vandasama verkefni næstu árin, “ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra: „Markmiðið er að ná fram áföngum við heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar á þessu kjörtímabili og því næsta. Við munum leita allra leiða til að sjónarmið almennings vísi veginn í þessari vinnu og sem flestir geti tekið þátt í að móta breytingartillögur. Framtíðarsýnin er að stjórnarskráin endurspegli sem best sameiginleg grunngildi þjóðarinnar og renni traustum stoðum undir lýðræðislegt réttarríki þar sem vernd mannréttinda er tryggð.“

Unnur Brá lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2000. Hún tók sæti á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn árið 2009 en hafði áður meðal annars starfað sem sveitarstjóri Rangárþings eystra. Unnur Brá gegndi formennsku í allsherjarnefnd 2013-2016 og var forseti Alþingis árið 2017. Nú situr hún á Alþingi sem varaþingmaður.

Unnur Brá mun hefja störf í forsætisráðuneytinu 1. apríl næstkomandi. Hún verður ráðin sem aðstoðarmaður ríkisstjórnar, sbr. 22. gr. laga um Stjórnarráð Íslands.

Sjá frétt um fyrirkomulag stjórnarskrárvinnu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum