Hoppa yfir valmynd
Utanríkisráðuneytið

Ísland styrkir stoðir stofnana SÞ með kjarnaframlögum

Guðlaugur Þór og Natalia Kanem, UNFPA, - mynd

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra hitti seinnipartinn í gær framkvæmdastjóra þriggja stofnana Sameinuðu þjóðanna sem íslensk stjórnvöld eru í samstarfi við, þ.e. Mannfjöldasjóð Sameinuðu þjóðanna (UNFPA), Palestínuflóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF). Hann undirritaði rammasamning um áframhaldandi stuðning við UNFPA og UNRWA en rammasamningur við UNICEF er nú þegar í gildi.

„Ísland hefur einsett sér að styrkja stoðir þessara mikilvægu stofnana með kjarnaframlögum og sveigjanlegu, fyrirsjáanlegu fjármagni,“ sagði Guðlaugur Þór. „Samningarnir sem við undirrituðum nú gera stofnunum betur kleift að bregðast við neyð þar sem þess er þörf en jafnframt skipuleggja starfsemina til lengri tíma svo fjármagnið nýtist sem best.“ Hann sagði að þó að áherslurnar væru ólíkar, björguðu allar þessar samstarfsstofnanirnar mannslífum á hverjum degi og tryggðu milljónum menntun og heilbrigðisþjónustu.

Peter Mulrean, forsvarsmaður UNRWA í New York, undirritaði samninginn fyrir hönd stofnunarinnar. Utanríkisráðherra ræddi við hann stöðuna fyrir botni Miðjarðarhafs og brýn störf UNRWA á svæðinu. Fimm milljónir palestínskra flóttamanna búa á Gaza, Vesturbakkanum, í Líbanon, Jórdaníu og Sýrlandi. Á hverju ári veitir UNRWA 3 milljónum þeirra heilbrigðisaðstoð og sér hálfri milljón barna fyrir menntun. Með átökunum í Sýrlandi hefur þörfin á aðstoð UNRWA aukist enn frekar.

Vegna langvarandi átaka þurfa nú 13 milljónir Sýrlendinga á aðstoð að halda. UNFPA tryggir aðgengi þúsunda kvenna að mæðravernd og fæðingaraðstoð auk þess að stuðla að öryggi og velferð kvenna og stúlkna á flótta. Samkomulagið sem Guðlaugur Þór og Natalia Kanem, framkvæmdastýra UNFPA, undirrituðu í dag felur í sér milljón Bandaríkjadala framlag Íslands til UNFPA í Sýrlandi sem greitt verður á næstu fimm árum. Er það í samræmi við skuldbindingar Íslands um aðstoð við sýrlenska flóttamenn og áherslu stjórnvalda á mikilvægi þjónustu og réttindavörslu á borð við þá sem UNFPA veitir.

Þá hittu utanríkisráðherra og Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri landsnefndar UNICEF á Íslandi, varaframkvæmdastjóra UNICEF, Justin Forsyth. Ræddu þeir áframhaldandi stuðning íslenskra stjórnvalda og mögulega aðkomu einkageirans að starfi stofnunarinnar. UNICEF er lykilstofnun í að tryggja velferð barna í þróunarríkjum og á átakasvæðum og leggja íslensk stjórnvöld áherslu á að styrkja störf hennar. Sem dæmi um árangur stofnunarinnar má nefna að á árinu 2016 tryggði hún 11,7 milljónum barna á átakasvæðum aðgang að menntun, bólusetti 85 milljón börn við mislingum og aðstoðaði 4,5 milljón alvarlega vannærð börn.

Auk kjarnaframlags til UNICEF, styðja íslensk stjórnvöld m.a. hreinlætisverkefni í Mósambík og heilbrigðisverkefni í Palestínu. Þegar saman eru talin framlög ríkisins og landsnefndarinnar skipar Íslandi í fjórða sæti framlagaríkja m.v. höfðatölu.


Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd
Heimsmarkmið - mynd
Heimsmarkmið - mynd
Heimsmarkmið - mynd
Heimsmarkmið - mynd
Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira