Hoppa yfir valmynd
Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Kynntu samstarfs- og fjárfestingartækifæri hjá Endureisnar- og þróunarbanka Evrópu

Frá kynningarfundi um Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu í Hörpu í morgun. - mynd

Fjárfestingartækifæri og tækifæri til samstarfs milli fyrir íslenskra fyrirtækja og Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu (EBRD) voru kynnt á fundi í Hörpu í dag. Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Íslandsstofa og Íslenski jarðvarmaklasinn stóðu að fundinum þar sem einnig var farið almennt yfir starfsemi bankans.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og Enzo Quattrociocche, aðalritari EBRD opnuðu fundinn.

Bjarni benti í erindi sínu á mikilvægi þess að íslensk fyrirtæki og fjárfestar fái reglulega kynningu á þeim tækifærum sem felast í að starfa með stofnunum sem Ísland á aðild að, á borð við EBRD og Innviðafjárfestingabanka Asíu. „Hér blasa við tækifæri fyrir ráðgjafafyrirtæki okkar sem vilja starfa á alþjóðavettvangi og byggja á sérþekkingu okkar, faglegri ráðgjöf og reynslu af nýtingu orkulinda hér á Íslandi,“ sagði Bjarni.

Sérfræðingar EBRD gerðu á fundinum grein fyrir starfsemi bankans og með hvaða hætti hann getur unnið með íslenskum fyrirtækjum og fjárfestum. Tækifærin liggja einkum á möguleikum til að starfa sem ráðgjafar í verkefnum á vegum bankans, m.a. í orkutengdum verkefnum. Þá eiga íslensk fyrirtæki möguleika á að fá bankann sem fjármögnunaraðila að verkefnum eða starfa með beinum hætti með honum að fjárfestingum á starfssvæðum hans. 

Endurreisnar- og þróunarbanki Evrópu (EBRD) er alþjóðleg fjármálastofnun sem Ísland á aðild að, sem fjármagnar aðallega verkefni á vegum einkafyrirtækja. Starfsemi bankans nær til yfir 30 landa - frá Austur-Evrópu til Mið-Asíu og Suður- og Austur-Miðjarðarhafs – og er sérstök áhersla lögð á þróun og fjármögnun verkefna á sviði endurnýjanlegrar orku og umhverfisvænna orkugjafa. Alls námu verkefni undir hatti „Green Economic Transition“ um 43% af heildarumfangi fjárfestinga bankans á árinu 2017.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira