Hoppa yfir valmynd
Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Snemmtæk íhlutun mikilvæg til að minnka brottfall úr skólakerfinu

Brotthvarf nemenda úr skólakerfinu var til umfjöllunar á fundi Velferðarvaktarinnar, samráðsvettvangi á sviði velferðarmála í gær. Að Velferðarvaktinni standa ýmis samtök, aðilar vinnumarkaðarins, ráðuneyti, ríkisstofnanir og sveitarfélögin. Fram kom á fundinum að lykilatriði í því að minnka brotthvarf nemenda væri snemmtæk íhlutun á grunnskólastigi og því væri mikilvægt að forgangsraða í þágu þess.

Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, fór á fundinum yfir þróun brotthvarfs úr skólakerfinu síðustu árin og upplýsti um þá vinnu sem stendur yfir í ráðuneytinu til að mæta þeim vanda: „Þrátt fyrir þær góðu fréttir að hlutfall brautskráðra nemenda hafi hækkað og hlutfall þjóðarinnar sem ekki hefur lokið meira en tveggja ára menntun úr framhaldsskóla hafi lækkað er það mikil áskorun að vinna að því minnka það brotthvarf sem sannarlega á sér stað.“

Meðal þeirra aðgerða sem ráðist hefur verið í eru nánari kortlagning brotthvarfshópanna og reglulegri mælingar á brotthvarfi. Mennta- og menningarmálaráðherra hefur fundað með Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um samstarf um aukið aðgengi framhaldsskólanemenda að geðheilbrigðisþjónustu og er sú vinna í fullum gangi. Auknu fjármagni hefur líka verið úthlutað til framhaldsskóla til þess að mæta betur þörfum nemenda sem líklegir eru til að hverfa frá námi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira