Hoppa yfir valmynd
17. apríl 2018 Innviðaráðuneytið

Ráðherra mælti fyrir stefnumótandi byggðaáætlun 2018-2024

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra mælti á Alþingi í gær fyrir tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018 til 2024. Áætlunin er unnin í samræmi við lög um byggðaáætlun og sóknaráætlanir nr. 69/2015 þar sem kveðið er á um að áætlunin lýsi stefnu ríkisins í byggðamálum hverju sinni og samhæfingu við aðra stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera.

Markmið byggðaáætlunar
Ráðherra sagði byggðaáætlun vera mikilvægt tæki fyrir stjórnvöld á hverjum tíma að hafa áhrif á framgang og móta stefnu í byggðamálum, fyrir landið í heild og einstök svæði. Byggðaáætluninni er ætlað að stuðla að jákvæðri þróun byggða og að efla samkeppnishæfni þeirra sem og landsins alls. Byggðamál eru öll þau viðfangsefni sem hafa áhrif á lífsgæði og samkeppnishæfni landshluta, svo sem búsetu, atvinnu og nýsköpun. Þau snúa að eflingu samfélaga, félagsauðs, atvinnulífs, menntunar, menningar, velferðarmála, samgangna, fjarskipta og umhverfis- og auðlindamála. Samkvæmt þessari skilgreiningu eru byggðamál viðfangsefni allra ráðuneyta með einhverjum hætti. Því er mikilvægt að samhæfa byggðasjónarmið sem mest við alla málaflokka hvort heldur er hjá ríki eða sveitarfélögum.

Í byggðaáætlun eru sett fram eftirfarandi þrjú markmið:

  1. Að jafna aðgengi að þjónustu.
  2. Að jafna tækifæri til atvinnu.
  3. Að stuðla að sjálfbærri þróun byggða um allt land.

Margvíslegar áherslur á sviði byggðamála eru tíundaðar í áætluninni sem eiga að leiða til beinna og skilgreindra aðgerða eða til samþættingar við aðgerðir í öðrum opinberum áætlunum til að framangreindum markmiðum verði náð. Alls eru 54 aðgerðir skilgreindar, sem heyra undir ábyrgðarsvið flestra ráðuneyta, auk þess sem mælikvarðar eru settir við hvert markmið. Fjárheimildir byggðaáætlunar verða nýttar til að fjármagna einstakrar aðgerðir, ýmist alfarið eða með samfjármögnun með ábyrgðaraðilum, eftir því sem fjárheimilir fjárlaga leyfa hverju sinni. „Ég legg áherslur á að við framkvæmd laga um opinber fjármál verði fjallað sérstaklega um byggðasjónarmið í tengslum við mótun og framlagningu fjármálaáætlunar og fjárlaga hvers árs. Það er mikilvægt að við setjum öll upp byggðagleraugun þegar við rýnum áform okkar og forgagnsröðun fjárveitinga.“

Undirbúningur og samráð
Tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun 2018-2024 hefur verið í vinnslu um nokkurt skeið. Ráðherra byggðamála fól Byggðastofnun að vinna áætlunina samkvæmt nýjum lögum með bréfi dags. 9. mars 2016. Af hálfu Byggðastofnunar var lögð áhersla á opinn mótunarferil og leitað var eftir viðhorfum til þess hvernig byggðaáætlun væri best hagað eftir nýjum lögum, sem og hvernig samspilið ætti að vera við sóknaráætlanir landshlutanna og áætlanir ráðuneyta.

Samráðsfundir hafa verið haldnir með samráðsvettvangi sjö landshluta, en hver samráðsvettvangur um sig er skipaður nokkrum tuga einstaklinga úr öllum geirum og svæðum landshlutans og móta sóknaráætlanir þeirra. Með þessum fundum hófst formlegt samráð sem síðan var ræktað á vefsíðu Byggðastofnunar þar sem gögn voru aðgengileg og allir gátu lagt fram tillögur. Til þess að fá sýn á byggðaþróun frá utanaðkomandi aðila var Framtíðarsetur Íslands fengið til þess að greina sviðsmyndir fyrir búsetuþróun á landinu til ársins 2030 og voru niðurstöður kynntar á opnum fundi í Reykjavík 27. september 2016.

Drögum að byggðaáætlun var skilað til ráðherra í janúar 2017 eða um það leyti sem byggðamál voru færð í nýtt ráðuneyti samgöngu- og sveitarstjórna. Haustið 2017 var skipaður verkefnishópur fulltrúa allra skrifstofa samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, Byggðastofnunar og Sambands íslenskra sveitarfélaga til að fullvinna drög Byggðastofnunar. Endurbætt drög voru kynnt öllum ráðuneytum auk þess sem drögin fóru í opið samráð í Samráðgátt stjórnvalda sem lauk 21. mars síðastliðinn. Ráðherra lýsti sérstakri ánægju með það hversu margar efnisríkar og ítarlegar umsagnir bárust þegar tillagan var til kynningar í marsmánuði í Samráðsgáttinni. „Í mínum huga staðfesta þær að miklar væntingar eru bundnar við að við náum árangri á þessu sviði.“

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum