Hoppa yfir valmynd
25. apríl 2018 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Viðurkenningar á Degi umhverfisins

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, ásamt fulltrúum Eldingar, Rannveigu Grétarsdóttur framkvæmdastjóra og Sveini Hólmari Guðmundssyni, umhverfisstjóra. - mynd

Umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, veitti Eldingu Hvalaskoðun Reykjavík í dag Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, fyrir framúrskarandi starf að umhverfismálum á síðasta ári. Við sama tækifæri voru nemendur í Brúarskóla í Reykjavík og Grundaskóla á Akranesi útnefndir Varðliðar umhverfisins. Þá voru fimm stúlkur í 10. bekk Hagaskóla jafnframt útnefndar Varðliðar umhverfisins fyrir verkefnið Pokastöðin Vesturbær.

Kuðungurinn

Í rökstuðningi dómnefndar fyrir valinu á Eldingu Hvalaskoðun sem handhafa Kuðungsins kemur fram að Elding hafi haft virka umhverfisstjórnun í sínum rekstri allt frá stofnun fyrirtækisins árið 2000. Fyrirtækið hafi ætíð unnið eftir umhverfisvottunarkerfum þar sem stöðugra úrbóta er krafist og fylgst sé með hvernig gengur af óháðum matsaðila. Þá hafi Elding tekið þátt í ýmsum nýsköpunarverkefnum tengdum umhverfismálum, dregið markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda, noti eingöngu umhverfisvottaðar efnavörur og aukið verulega flokkun úrgangs frá fyrirtækinu. Elding hafi verið virk í samstarfi um umhverfismál og sýnt frumkvæði og verið virkt í ýmissi þróunarvinnu sem tengist umhverfisvænum lausnum. Þá sé viðskiptavinum Eldingar boðin markviss umhverfisfræðsla sem hluta af leiðsögn hvalaskoðun og norðurljósaferðum frá leiðsögumönnum sem eru menntaðir líffræðingar.

Verðlaunagripurinn, Kuðungurinn, sem Elding hlaut, er að þessu sinni eftir Róshildi Jónsdóttur og Snæbjörn Þór Stefánsson hjá Hugdettu. Um er að ræða kertastjaka sem er þrívíð stöplamynd af hlýnun lands og sjávar síðastliðin 100 ár. Er hugmyndin að logi kertisins sem hvílir í kuðungum muni minna Eldingu og starfsmenn þess á mikilvægi þess að halda sínu góða umhverfisstarfi áfram. Þá öðlast Elding rétt til að nýta merki verðlaunanna í kynningu á starfsemi sinni.

Varðliðar umhverfisins

Verkefni nemenda 9. bekkjar nemenda í Grundaskóla á Akranesi var með yfirskriftina „Hafðu áhrif“ og hafði það markmiði að hafa áhrif á samfélagið og vekja aðra til umhugsunar um umhverfismál. Nemendurnir endurnýttu gamalt efni og saumuðu innkaupapoka og grænmetispoka sem seldir voru á árlegum Malavímarkaði skólans, unnu kynningarmyndband um mikilvægi þess að minnka plastnotkun, gróðursettu plöntur og týndu rusl í skógræktinni og sendu bæjarstjóranum á Akranesi áskorun um að koma þar upp flokkunaraðstöðu. Þeir voru einnig með fræðslu fyrir nemendur og kennara í skólanum um bætta sorpflokkun og umhverfismál almennt. Að auki hönnuðu nemendur fernur fyrir vatn í stað hefðbundinna plastflaskna og skrifuðu greinar um umhverfismál sem birtar voru á Facebook-síðu árganganna. Var það mat valnefndar að nemendur í 9. bekk í Grundaskóla hafi með verkefnum sínum fjallað um umhverfismál í víðum skilningi og leitast við að hafa jákvæð áhrif á samfélag sitt með því að hvetja til umhverfisvænni lifnaðarhátta á fjölbreyttan hátt. „Ekki sé annað að sjá en að þeim hafi tekist ljómandi vel í þeirri viðleitni sinni að „Hafa áhrif“, eins og lagt var upp með í byrjun.“

Nemendur í Brúarskóla í Reykjavík rannsökuðu mismunandi eiginleika og birtingarform vatns og bjuggu m.a. til samstarfsverkefnið „Fossa“ úr ljósmyndum, textíl og málverki – listaverk sem voru svo til sýnis á nýliðinni Barnamenningarhátíð. Einstaklingsverkefni nemenda voru fjölbreytt, s.s. plaköt, glærusýning, Kahoot spurningakeppni, púsluspil og fleira. Þá gegndi vefsíða sem sett var upp um vatn lykilhlutverki í að miðla upplýsingum og skoðunum nemenda og kennara um vatnið. Það er mat valnefndar að nemendur í Brúarskóla hafi með nýstárlegum hætti fjallað um mikilvægt umhverfismál sem ekki er oft í hringiðu umræðunnar. Þeir hafi notað fjölbreyttar leiðir til að koma boðskap sínum á framfæri innan sem utan skólans, og „nýtt sér listræna hæfileika til að sýna á frumlegan og ljóðrænn hátt fjölbreytt form vatnsins og hversu miklu máli það skiptir fyrir allt mannkyn.“

Tíundubekkingurinn Selma Rebekka Kattoll fékk vinkonur sínar, þær Eir Ólafsdóttur, Eyrúnu Úu Þorbjörnsdóttur, Nínu Solveigu Andersen og Pauline Krogbäumker, til liðs við sig í það verkefni að koma upp pokastöð í Vesturbænum sem opnaði í febrúar sl. Markmið pokastöðva er að draga úr plastpokanotkun með því að bjóða viðskiptavinum verslana til láns margnýtanlega innkaupapoka sem saumaðir eru úr endurvinnanlegum efnum. Þær vinkonur sannfærðu eigendur Melabúðarinnar um að koma upp stöðinni í verslun sinni og Hjálpræðisherinn gaf gamalt efni til að sauma úr pokana. Félagsmiðstöðin Vesturreitir lánar verkefninu húsnæði. Þar standa þær reglulega fyrir opnum saumahittingum sjálfboðaliða, sem boðaðir eru í gegn um Facebook-hóp verkefnisins, auk þess sem þær verja drjúgum hluta síns frítíma í pokasaum. Verkefnið er nú skráð í gagnagrunn Roots & Shoots, sem er ungmennahreyfing um umhverfismál sem Dr. Jane Goodall kom á fót. Verkefnið er að mati valnefndar framúrskarandi verkefni. „Að eigin frumkvæði hafa þær stúlkur fengið fjölda aðila, bæði fyrirtækja og einstaklinga, í lið með sér og tekið stór skref í að sannfæra þá fullorðnu um mikilvægi þess að breyta hversdagslegum háttum okkar umhverfinu til heilla. Betri leiðsögn geta þeir sem sitja við stjórnvölinn í dag varla fengið frá framtíðinni.“

Viðurkenningarnar voru afhentar á hátíðarathöfn sem haldin var í Hannesarholti í dag. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar viðurkenningarhöfum innilega til hamingju.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum