Dómsmálaráðuneytið

Ríkissaksóknari svarar dómsmálaráðherra

Dómsmálaráðherra óskaði eftir því 20. apríl sl. að ríkissaksóknari kannaði, með vísan til 19. gr. sakamálalaga, tildrög þess að einstaklingur var vistaður á Sogni í kjölfar fyrirtöku gæsluvarðhaldskröfu 16. apríl sl. og lagalegan grundvöll þeirrar frelsissviptingar. Ríkissaksóknari hefur nú greint dómsmálaráðuneytinu frá niðurstöðu sinni og fyrirhuguðum viðbrögðum.


Ríkissaksóknari aflaði upplýsinga frá öllum lögreglustjórum og héraðssaksóknara um framkvæmd gæsluvarðhaldskrafna, þ. á m. um það atriði hvenær krafa um framlengingu gæsluvarðhalds er gerð.


Ríkissaksóknari telur brýnt að tryggja þá framkvæmd að kröfur um gæsluvarðhald, þ.m.t. kröfur um framlengingu gæsluvarðhalds, berist dómstólum með það löngum fyrirvara að dómari hafi hæfilegan tíma til að fara yfir kröfuna og gögn sem henni fylgja og geti með góðu móti kveðið upp úrskurð áður en fyrri úrskurður rennur út.


Ríkissaksóknari mun því á næstu vikum beina fyrirmælum til lögreglustjóra og héraðssaksóknara þessa efnis. Áður en þau fyrirmæli verða send út mun ríkissaksóknari eiga fund með dómstólasýslunni um samræmt verklag við meðferð gæsluvarðhaldskrafna. Ríkissaksóknari hefur þegar óskað eftir þessu samráði og var vel í það tekið af hálfu dómstólasýslunnar.


Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, segir að tryggja þurfi að sakborningar séu ekki settir í gæsluvarðhald eða fangelsi án dómsúrskurðar. Hún tekur undir boðuð viðbrögð ríkissaksóknara.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn