Hoppa yfir valmynd
Utanríkisráðuneytið

Fundur utanríkisráðherra Íslands og Japans í Tókýó

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, fundaði í dag með Taro Kono, utanríkisráðherra Japans, í Tókýó. Fundurinn er hápunktur fjögurra daga vinnuferðar ráðherrans til Japans sem er hans fyrsta ferð til Asíu eftir að hann tók við embætti. Með ráðherra í för er viðskiptasendinefnd skipuð hátt í þrjátíu fulltrúum íslenskra fyrirtækja.

,,Það er hvatning að finna þennan mikla áhuga á auknum viðskiptum milli Japans og Íslands. Ég legg áherslu á að utanríkisþjónustan greiði götu íslenskra fyrirtækja erlendis og þessi ferð er liður í því,” sagði Guðlaugur Þór. ,,Á fundi mínum með japanska utanríkisráðherranum ítrekaði ég áhuga íslenskra stjórnvalda á því að dýpka samstarf ríkjanna enn frekar á öllum sviðum, ekki síst viðskipta.”

Á fundi sínum staðfestu ráðherrarnir samkomulag um tímabundin atvinnuréttindi ungs fólks. Ráðherrarnir fögnuðu einnig undirritun tvísköttunarsamnings landanna í janúar sl. sem kemur til framkvæmda á þessu ári og mun greiða fyrir viðskiptum og fjárfestingum milli landanna. Þá ítrekaði Guðlaugur Þór áhuga íslenskra stjórnvalda á að hefja samningaviðræður við Japan um gerð loftferðasamnings og fríverslunarsamnings.

Ráðherrarnir voru sammála um að efla samstarf á sviði viðskipta- og menningarmála, sem og á sviði norðurslóðamála. Tara Kono, utanríkisráðherra, stefnir á að þiggja boð um að vera ræðumaður á Hringborði norðurslóða næsta haust. Ráðherrarnir ræddu einnig þróun mála í Asíu, m.a. ástand mála á Kóreuskaga, og mikilvægi þess að tala áfram fyrir frjálsum viðskiptum innan alþjóðaefnahagskerfisins.

Í gær ávarpaði ráðherra fjölmennt viðskiptaþing þar sem Íslandsstofa og íslensk fyrirtæki kynntu hátt í 200 gestum úr japönsku viðskiptlífi starfsemi sína á sviði endurnýjanlegrar orku, ferðaþjónustu og sjávarútvegs- og landbúnaðarmála. Viðskiptaþingið var skipulagt af Íslandsstofu og JETRO, japanskri systurstofnun hennar, í samstarfi við Japansk-íslenska og Íslensk-japanska viðskiptaráðið, Viðskiptaráð Íslands og sendiráð Íslands í Tókýó.

Ráðherra fundaði einnig með mennta- og menningarmálráðherra og þingmönnum úr vinafélagi Íslands á japanska þjóðþinginu. Þá heimsótti hann fjölmörg japönsk samstarfsfyrirtæki íslensku fyrirtækjanna og var viðstaddur undirritun nýrra viðskiptasamninga. Fyrr í dag var hann sérstakur gestur hins virta blaðamannafélags Japan National Press Club þar sem öryggismál á Norður-Atlantshafi og málefni norðurslóða voru rædd.

Framundan eru m.a. fundir með landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, dómsmálaráðherra og aðstoðarsamgöngumálaráðherra Japans.

Ræða ráðherra á viðskiptaþingi Íslandsstofu og JETRO
Ávarp ráðherra á fundi Japan National Press Club

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira