Hoppa yfir valmynd
31. maí 2018 Innviðaráðuneytið

Hægri umferð í 50 ár – tímamótanna minnst

Valgarð Briem ekur sömu bifreið og fyrir 50 árum yfir á hægri akrein við athöfnina. - mynd

„Með miklu og samhentu átaki í aðdraganda þess að skipt var úr vinstri yfir í hægri umferð á Íslandi fyrir 50 árum var lagður grunnur að vitund Íslendinga um ábyrgð sína í umferðaröryggismálum og mikilvægi forvarna og fræðslu,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, í ávarpi sínu við athöfn sem haldin var í dag til að minnast þess að um þessar mundir eru 50 ár frá að því Íslendingar tóku upp hægri umferð.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og Samgöngustofa buðu til athafnarinnar sem fór fram við Skúlagötu 4, en það var einmitt þar sem fyrst var ekið, með formlegum hætti, af vinstri akrein yfir á þá hægri árla dags 26. maí 1968, á H-deginum svokallaða. Auk Sigurðar Inga ávarpaði Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu, gesti. Valgarð Briem, sem var formaður framkvæmdanefndar hægri umferðar, ók með sama hætti og á sama bíl og hann gerði fyrir 50 árum á þessum stað. Í kjölfarið ók nýútskrifaður ökumaður, Amanda Lind Davíðsdóttir, á sjálfkeyrandi bifreið og í kjölfarið fylgdu fleiri gerðir ökutækja, en lokað var fyrir almenna umferð þá stund sem athöfnin stóð yfir.

Kastljósinu var varpað á umferðaröryggismál í tilefni af þessum tímamótum og sagði ráðherra að í sínum huga væri alveg ljóst að hver króna sem færi til þess að auka umferðaröryggi okkar skilaði sér. „Er þá sama hvert litið er. Eftirlit lögreglu nær þeim sem brjóta umferðarreglur og kennir okkur lexíu, fræðslan nær til allra aldurshópa vegfarenda og stuðlar að því að gera okkur að betri vegfarendum, aðgerðir og endurbætur á vegum miða að því að minnka áhættu og draga úr afleiðingum umferðarslysa og færa okkur vitneskju um hvar við getum bætt úr.“

Meðal gesta voru margir þeirra sem báru hitann og þungann af undirbúningnum fyrir 50 árum og voru þeim færðar þakkir bæði af ráðherra og forstjóra Samgöngustofu. „Ný hugsun var tekin upp fyrir fimmtíu árum síðan, þökk sé þeim sem vörðuðu þessa leið svona vel til framtíðar. Næstu fimmtíu ár munu án nokkurs vafa færa okkur nýjar áskoranir og breytt landslag,“ sagði ráðherra. „Fyrst og fremst er ábyrgðin samt hjá okkur sjálfum - við ráðum því sjálf hvaða árangri við náum í umferðaröryggi og slysavörnum. Lítum í eigin barm.“

Svipmyndir frá athöfninni:

  • Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra ávarpar gesti við athöfnina. - mynd
  • Valgarð Briem, Amanda Lind Davíðsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson.  - mynd
  • Svipmynd frá athöfninni. - mynd
  • Svipmynd frá athöfninni. - mynd
  • Frá athöfninni. - mynd
  • Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu ávarpar gesti. - mynd
  • Farartækin við athöfnina. - mynd
  • Svipmynd frá athöfninni. - mynd
  • F.v. Kristín Claessen, Valgarð Briem, Amanda Linda Davísdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson og Þórólfur Árnason. - mynd
  • Svipmynd frá athöfninni. - mynd
  • Ingveldur Sæmundsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra, og Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri. - mynd
  • Sigurður Ingi Jóhannsson í sjálfkeyrandi bíl við athöfnina. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum