Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Umtalsverð fjölgun umsókna um verknám

Umsóknafrestur um skólavist í framhaldsskóla rann út á miðnætti sl. föstudag. Samkvæmt tölum frá Menntamálstofnun höfðu rúmlega 3800 nemendur skilað inn sínum umsóknum um miðja síðustu viku. Vísbendingar eru um að fjölgun sé í umsóknum um verknám, af fyrstu tölum má sjá að 17% þeirra sem sóttu um skólavist fyrir haustið hafa valið sér verknámsbrautir sem sitt fyrsta val. Í fyrra innrituðust 12% nemenda á verk- eða starfsnámsbrautir. Mest virðist aðsóknin nú vera í rafiðngreinar en einnig í málm- og byggingagreinar.

„Þetta eru ánægjulegar fréttir. Við höfum beitt okkur fyrir því að styrkja iðn-, verk- og starfsnám og kynna betur þá fjölbreyttu námskosti sem bjóðast á framhaldsskólastiginu. Þetta eru ekki endanlegar tölur en þær gefa okkur jákvæðar vísbendingar um að við séum á réttri leið, segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Skólarnir vinna nú úr umsóknunum og þegar þeirri vinnu lýkur verður ljóst hverjir komast inn í sitt fyrsta val, en í fyrra fengu 88% nemenda skólavist í þeim skóla sem þeir völdu sér í fyrsta vali og 10% nemenda fengu inn í því þeim skóla sem þeir völdu sem annað val. Aðeins 2% umsækjenda fengu ekki skólavist í þeim skólum sem þeir höfðu óskað eftir.

Í fyrra innrituðust 65% nemenda á bóknámsbrautir, 12% nemenda á verk- eða starfsnámsbrautir sem fyrr segir, 5% nemenda á listnámsbrautir, og 18% á almenna námsbraut eða framhaldsskólabraut sem einkum eru ætlaðar þeim sem ekki uppfylla inntökuskilyrði fyrir aðrar námsbrautir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn