Hoppa yfir valmynd
Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Umtalsverð fjölgun umsókna um verknám

Umsóknafrestur um skólavist í framhaldsskóla rann út á miðnætti sl. föstudag. Samkvæmt tölum frá Menntamálstofnun höfðu rúmlega 3800 nemendur skilað inn sínum umsóknum um miðja síðustu viku. Vísbendingar eru um að fjölgun sé í umsóknum um verknám, af fyrstu tölum má sjá að 17% þeirra sem sóttu um skólavist fyrir haustið hafa valið sér verknámsbrautir sem sitt fyrsta val. Í fyrra innrituðust 12% nemenda á verk- eða starfsnámsbrautir. Mest virðist aðsóknin nú vera í rafiðngreinar en einnig í málm- og byggingagreinar.

„Þetta eru ánægjulegar fréttir. Við höfum beitt okkur fyrir því að styrkja iðn-, verk- og starfsnám og kynna betur þá fjölbreyttu námskosti sem bjóðast á framhaldsskólastiginu. Þetta eru ekki endanlegar tölur en þær gefa okkur jákvæðar vísbendingar um að við séum á réttri leið, segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Skólarnir vinna nú úr umsóknunum og þegar þeirri vinnu lýkur verður ljóst hverjir komast inn í sitt fyrsta val, en í fyrra fengu 88% nemenda skólavist í þeim skóla sem þeir völdu sér í fyrsta vali og 10% nemenda fengu inn í því þeim skóla sem þeir völdu sem annað val. Aðeins 2% umsækjenda fengu ekki skólavist í þeim skólum sem þeir höfðu óskað eftir.

Í fyrra innrituðust 65% nemenda á bóknámsbrautir, 12% nemenda á verk- eða starfsnámsbrautir sem fyrr segir, 5% nemenda á listnámsbrautir, og 18% á almenna námsbraut eða framhaldsskólabraut sem einkum eru ætlaðar þeim sem ekki uppfylla inntökuskilyrði fyrir aðrar námsbrautir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira