Hoppa yfir valmynd
19. júní 2018 Forsætisráðuneytið

Ráðherranefnd um jafnréttismál fundar á kvenréttindadeginum 19. júní

  - myndJohannes Jansson/norden.org
Ráðherranefnd um jafnréttismál kom saman til fundar í forsætisráðuneytinu í dag á kvenréttindadeginum.

Á fundi nefndarinnar var kynnt úthlutun úr Jafnréttissjóði, sem fram fór fyrr um daginn. Vinna dómsmálaráðuneytis við gerð nýrrar aðgerðaráætlunar gegn mansali var einnig til umræðu á fundinum. Þá var rætt um að standa að alþjóðlegri ráðstefnu um #metoo bylgjuna á Íslandi haustið 2019, í tengslum við formennsku Íslands í norrænu ráðherranefndinni.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:

„Jafnréttismál eru þungamiðja í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Skrefin sem tekin verða á þessu kjörtímabili eru stór og smá en samanlagt þoka þau okkur áfram. Við höfum þegar fullgilt Istanbúlsamninginn, gert jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna að lögum og sömuleiðis jafna meðferð á vinnumarkaði. Frumvarp um mannréttindi intersex-fólks er í undirbúningi og mun koma Íslandi í fremstu röð í málefnum hinsegin fólks. Að auki hefur aðgerðaáætlun um úrbætur í meðferð kynferðisbrota verið fjármögnuð að fullu og stýrihópur á mínum vegum fylgir þessu starfi eftir þessa dagana með heildarendurskoðun á forvörnum, stefnumótun um stafrænt kynferðisofbeldi, viðbrögðum við #metoo og úrbótum á réttarstöðu brotaþola. Á næsta ári fer Ísland með formennsku í norrænu ráðherranefndinni og uppi er sú hugmynd að halda alþjóðlega ráðstefnu um #metoo bylgjuna í tengslum við það. Við erum enn í miðri byltingu í þessum efnum og á ráðstefnunni yrði leitast við að greina áhrifin af #metoo. Ég tel að þetta samtal geti hjálpað okkur að bregðast við ákalli kvenna á Íslandi um aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi og áreitni. Innleiðing jafnlaunavottunar er svo í fullum gangi sem er enn eitt verkfærið til þess að varpa ljósi á og uppræta kynbundinn launamun.“

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið Sþ: 5 Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum