Hoppa yfir valmynd
20. júní 2018 Heilbrigðisráðuneytið

Markmiðin með nýju greiðsluþátttökukerfi heilbrigðisþjónustu hafa náðst

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - myndVelferðarráðuneytið

Nýtt greiðsluþátttökukerfi heilbrigðisþjónustu hefur aukið jöfnuð eins og að var stefnt. / Þak sem sett var á hámarksgreiðslur sjúklinga hefur varið þá sem veikastir eru fyrir miklum útgjöldum. / Útgjöld barnafjölskyldna hafa lækkað og hlutverk heilsugæslunnar sem fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðiskerfinu styrkst. / Heildarútgjöld sjúklinga í nýju kerfi eru um 1,5 milljarði króna lægri á ársgrundvelli en áður. / Útgjöld ríkisins til  heilbrigðisþjónustu hafa aukist umfram fjárheimildir, einkum vegna sjúkraþjálfunar.

Sjúkratryggingar Íslands tóku saman skýrslu að beiðni heilbrigðisráðherra til að draga saman reynsluna af greiðsluþátttökukerfinu ári eftir að það var tekið í notkun. Skoðað var hvort breytingar hafi orðið á notkun heilbrigðisþjónustunnar, áhrif kerfisins á útgjöld sjúklinga í samanburði við gamla kerfið og áhrif breytinganna á útgjöld sjúkratrygginga fyrir heilbrigðisþjónustu. Breytingarnar sem tóku gildi 1. maí 2017 eru einhverjar þær mestu sem gerðar hafa verið á þessu sviði í áraraðir og því mikilvægt að greina hvernig til hefur tekist.

Hámarksgreiðsla sjúklings um 70.000 kr. á ári, í stað mörghundruð þúsunda króna áður

Árið 2016 greiddu rúmlega 15.500 einstaklingar meira en 70.000 kr. fyrir heilbrigðisþjónustu á árinu, þar af greiddu rúmlega 800 einstaklingar yfir 200.000 kr. og nokkrir tugir enn meira. Hæsta greiðsla einstaklings í gamla kerfinu nam rúmum 400.000 kr. Eftir að nýja kerfið tók gildi í maí 2017 hefur enginn greitt meira en um 71.000 kr. á 12 mánuðum, fyrir heilbrigðisþjónustu sem fellur undir kerfið.

„Nýja kerfið hefur reynst sjúklingum vel og þjónað því mikilvæga markmiði að lækka verulega útgjöld þeirra veikustu sem þurfa mest á heilbrigðisþjónustu að halda. Það er líka mikilvæg og góð breyting í nýja kerfinu að börn að átján ára aldri greiða nánast ekkert fyrir heilbrigðisþjónustu, líkt og að var stefnt með tilvísanakerfi barna sem var innleitt samhliða greiðsluþátttökukerfinu“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Aukin útgjöld til heilbrigðismála umfram fjárlög krefjast aðgerða

Stefna stjórnvalda er að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga vegna heilbrigðisþjónustu á móti aukinni kostnaðarþátttöku ríkisins. Í því skyni var bætt 1,5 milljörðum króna á ársgrundvelli inn í nýja greiðsluþátttökukerfið þegar það var innleitt sem skilaði tilætluðum árangri.

Útgjöld sjúkratrygginga vegna heilbrigðisþjónustu hafa aukist umtalsvert umfram þá 1,5 milljarða króna aukningu sem ákveðin var í fjárheimildum. Útgjöld umfram fjárheimildir eru einkum vegna kostnaðar við þjónustu sérgreinalækna og vegna sjúkraþjálfunar og gætu að óbreyttu numið yfir sjöhundruð milljónum króna á þessu ári.

Með nýju kerfi urðu miklar breytingar á greiðsluþátttöku sjúklinga vegna sjúkraþjálfunar. Breytingarnar hafa leitt til þess að notkun á þjónustunni hefur aukist um 17% og útgjöld sjúkratrygginga hafa aukist um 83%. Kostnaðarhlutdeild ríkisins í sjúkraþjálfun hefur stóraukist og notendurnir greiða mun minna en áður.

Ríkið sem ábyrgur kaupandi heilbrigðisþjónustu

Þótt meginmarkmiðin með nýju greiðsluþátttökukerfi hafi náðst er ljóst að breytingar þarf að gera til að ná taumhaldi á þeim þáttum sem leiða til aukinna útgjalda umfram heimildir. Þjónusta sjúkraþjálfara og sérgreinalækna byggist á sambærilegum samningum þar sem læknum og sjúkraþjálfurum er greitt fyrir hvert unnið verk. Ríkisendurskoðun fjallar um vanda þessa fyrirkomulags í skýrslu til Alþingis um Sjúkratryggingar Íslands sem kaupanda heilbrigðisþjónustu (febrúar 2018) og segir þar m.a. „Með einföldum verkgreiðslum er áhættan af auknum kostnaði vegna meiri framleiðslu svo til öll á herðum kaupanda þjónustunnar, þ.e. ríkisins.“ Þetta fyrirkomulag hvetji því til magnaukningar, frekar en að ýta undir aukin gæði þjónustunnar með heildstæða og samhæfða meðferð sjúklingsins að leiðarljósi, segir m.a. í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Meðal þess sem fram kemur í úttekt Sjúkratrygginga Íslands á reynslunni af nýju greiðsluþátttökukerfi er að komum barna til sérgreinalækna  hefur fækkað hlutfallslega um 11% með tilvísanakerfinu. Við upphaf breytingarinnar voru um 20% barna sem leituðu til sérgreinalæknis með tilvísun frá heimilislækni en í apríl síðastliðnum var hlutfallið komið í 50%. Börn með tilvísun greiða ekkert fyrir þjónustu sérgreinalæknis. Auk þessa kemur fram að fjöldi einstaklinga sem sækja þjónustu hjá heilsugæslunni hefur aukist um 19% eftir að nýja kerfið tók gildi. Aftur á móti hefur komum sjúklinga til sérgreinalækna fækkað um 3%.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir ánægjulegt að sjá hvernig hlutverk heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar í heilbrigðiskerfinu er að eflast. Mikilvægt sé að fylgja því frekar eftir með aukinni áherslu á  þverfaglegt samstarf fagstétta innan hennar og fjölgun stöðugilda. „Það er í allra þágu að styrkja heilsugæsluna til að leysa úr algengustu heilbrigðisvandamálunum og nýta að sama skapi betur sérþekkingu sérgreinalæknanna í viðfangsefnum þar sem þekking þeirra kemur að mestum notum. Hvernig við gerum þetta verður sameiginlegt viðfangsefni heilbrigðiskerfisins á næstu mánuðum og misserum.“

 

 

  • Ingveldur Ingvarsdóttir frá Sjúkratryggingum Íslands
  • Jónas Jónsson og Svandís Svavarsdóttir frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Elsa B. Friðfinnsdóttir, sérfræðingur í velferðarráðuneytinu
  • Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira