Hoppa yfir valmynd
Heilbrigðisráðuneytið

Fagleg samræða um þjónustu sérgreinalækna

Velferðarráðuneytið Skógarhlíð - myndVelferðarráðuneytið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra stóð fyrir fundi í velferðarráðuneytinu í gær þar sem efnt var til samræðu um þjónustu sérgreinalækna og faglegt fyrirkomulag hennar með stefnumótun til framtíðar að leiðarljósi. Þátttakendur í fundinum voru fulltrúar helstu veitenda heilbrigðisþjónustu í landinu.

Eins og fram kom fundarboði var markmiðið að leiða saman fulltrúa félaga, samtaka og stofnana sem besta þekkingu hafa á þeirri mikilvægu heilbrigðisþjónustu sem sérgreinalæknar sinna, innan og utan heilbrigðisstofnana. Þannig fái ráðherra fram sjónarmið sem mikilvægt er að komi fram vegna þeirrar vinnu við mótun heilbrigðisstefnu sem unnið er að í velferðarráðuneytinu og vegna þeirra breytinga sem leiða munu af því að gildistími rammasamnings sérgreinalækna við Sjúkratryggingar Íslands er senn á enda.

Við upphaf fundarins lagði ráðherra áherslu á að markmið fundarins væri ekki að leiða mál til lykta, heldur fyrst og fremst að reifa helstu sjónarmið sem snúa að sérfræðiþjónustu lækna við sjúklinga og hvernig henni verði best hagað til að sinna þörfum sjúklinga. Áður en umræður hófust voru kynntar tölulegar upplýsingar sem ráðuneytið hefur tekið saman um notkun landsmanna á þjónustu sérgreinalækna. Í gögnunum eru settar fram upplýsingar um tíu mismunandi sérgreinar og gerður  samanburður á komum sjúklinga til þeirra eftir heilbrigðisumdæmum.

Til fundarins komu fulltrúar frá Samtökum heilbrigðisfyrirtækja, Læknafélagi Íslands, Sjúkratryggingum Íslands, Landspítala, Sjúkrahúsinu á Akureyri, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, auk eins fulltrúa sameiginlega frá heilbrigðisstofnunum allra heilbrigðisumdæma landsins.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra„Mikilvægur og góður fundur“

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir fundinn hafa verið mikilvægan og góðan. Eins og að var stefnt hafi umræðurnar verið á faglegum nótum og þjónustan út frá þörfum sjúklinga verið í forgrunni: „Mér fannst koma vel fram á fundinum að fagfólkið sem þarna kom saman er að mörgu leyti sammála um hvaða þættir heilbrigðiskerfisins virka vel, hvaða þætti þess þarf að bæta, hvaða tækifæri eru fyrir hendi til að gera betur og hvaða áskoranir eru framundan. Þetta var gott samtal og örugglega til gagns fyrir þá vinnu sem framundan er þar sem margir þurfa að leggja af mörkum.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira