Hoppa yfir valmynd
Heilbrigðisráðuneytið

Úttekt á smásölu lyfja á Íslandi

Velferðarráðuneytið hefur samið við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands um gerð ítarlegrar úttektar á smásölu lyfja hér á landi. Skoðað verður hvernig markaðurinn hefur þróast frá því að verslun með lyf var gefin frjáls árið 1996 og hvort helstu markmiðum lyfjalaga sé framfylgt.

Meginmarkmið lyfjalaga er að tryggja nægt framboð lyfja með sem hagkvæmastri dreifingu á grundvelli eðlilegrar samkeppni. Samkvæmt lögunum á lyfjadreifing að vera hluti heilbrigðisþjónustunnar og þeir sem starfa við verslun með lyf skulu vinna með öðrum aðilum heilbrigðisþjónustunnar að opinberum heilbrigðismarkmiðum. Jafnframt er markmið laganna að tryggja gæði og öryggi lyfja og lyfjaþjónustu, auka fræðslu um lyfjanotkun, sporna við óhóflegri notkun og halda lyfjakostnaði í lágmarki.

Í úttekt Hagfræðistofnunar verður samkeppnisstaða markaðarins greind, m.a. á grundvelli markaðshlutdeildar, samþjöppun eignarhalds og álagningar smásala. Jafnframt verður skoðuð hagkvæmni í lyfsölu og gæði þjónustunnar, þar á meðal dreifing apóteka um landið. Kannað verður hvort þær breytingar sem innleiddar voru í lyfjaverslun árið 1996 hafi skilað sér í lægra verði og betri þjónustu apóteka. Í breytingunni fólst m.a. að hætt var að takmarka fjölda apóteka og felld niður krafa um að eigendur þeirra væru lyfjafræðingar.
Niðurstöður greiningarinnar verða bornar saman við stöðuna hjá nágrannaþjóðum.

Áætlað er að Hagfræðistofnun ljúki verkinu um næstu áramót og skili þá ráðuneytinu skýrslu með niðurstöðum sínum.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira