Hoppa yfir valmynd
24. ágúst 2018 Forsætisráðuneytið

Ný skýrsla um stöðu efnahagsmála í aðdraganda kjarasamninga

  • Við gerð kjarasamninga þarf að taka tillit til fleiri þátta sem geta bætt lífskjör en fjölda króna í launaumslagi.
  • Mörg tækifæri til staðar til að bæta lífskjör án þess að skerða samkeppnishæfni útflutningsatvinnuveganna.
  • Mikilvægt að niðurstaða kjarasamninga styðji við framkvæmd peningastefnu og stjórn ríkisfjármála þannig að forsendur verði fyrir lágu vaxtastigi, lágri verðbólgu, hagvexti og vaxandi kaupmætti.

Forsætisráðuneytið fékk Gylfa Zoega prófessor til að skrifa yfirlit um stöðu efnahagsmála í tengslum við samtal stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins nú í aðdraganda kjarasamninga. Markmiðið var að fá greiningu á stöðu efnahagslífsins, áhættum, áskorunum og tækifærum á næstu árum sem skerpt gætu umræður ríkisstjórnar og vinnumarkaðar og almennt í samfélaginu. Drög að skýrslunni voru rædd á 10. fundi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins þann 13. ágúst sl. 

Í skýrslu sinni skrifar Gylfi að við gerð kjarasamninga verði að taka tillit til fleiri þátta sem hafa áhrif á lífsgæði en fjölda króna í launaumslagi. Mörg tækifæri séu til að bæta lífskjör því þau ákvarðast ekki aðeins af launum og neyslu heldur einnig t.d. húsnæðiskostnaði, vaxtastigi og frítíma. Þannig gefist tækifæri til að bæta lífskjör án þess að skerða samkeppnishæfni útflutningsatvinnugreinanna, t.d. með því að lækka kostnað í bankakerfinu, bæta útreikning húsnæðisliðar vísitölu neysluverðs sem notuð er til verðtryggingar, gera áætlun um að koma upp ódýru húsnæði fyrir yngri kynslóðir, breytingu á tekjuskattskerfinu í þágu lægri tekju hópa og styttingu eða aukinn sveigjanleika vinnutíma. 

Hann nefnir enn fremur að við gerð kjarasamninga í haust skipti það höfuðmáli að samið verði um raunhæfar hækkanir sem styðji við framkvæmd peningastefnu og stjórn ríkisfjármála þannig að áfram verði unnt að tryggja lága vexti, lága verðbólgu, áframhaldandi hagvöxt og vaxandi kaupmátt launa. Færa megi fyrir því rök að svigrúm til launahækkana sé nú minna en árið 2015 enda hafi hlutdeild launa í þjóðartekjum hækkað síðan þá og innlendar launahækkanir hafi veikt samkeppnisstöðu útflutningsatvinnugreinanna.

Hér má sjá skýrslu Gylfa Zoega um stöðu efnahagsmála í aðdraganda kjarasamninga

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum