Hoppa yfir valmynd
25. ágúst 2018 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Punktur settur aftan við „Átak til atvinnusköpunar“

Johannes Jansson / Norden.org - mynd

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur ákveðið að binda enda á átaksverkefni á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins sem nefnist „Átak til atvinnusköpunar“.

Stofnað var til átaksins í byrjun árs 1996 og það hefur undanfarin ár haft u.þ.b. 70 milljónir króna til ráðstöfunar á ári.

Verkefni Átaks til atvinnusköpunar hafa tekið töluverðum breytingum í áranna rás. Í upphafi var um að ræða samstarf iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins, Iðntæknistofnunar, Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs, bæði um ný verkefni og verkefni sem þessir aðilar höfðu sinnt áður.

Við ákvörðun ráðherra nú hefur ekki síst verið litið til þess að Tækniþróunarsjóður, sem stofnaður var árið 2004, hefur eflst verulega á undanförnum árum. Fjárframlög til hans hafa meira en tífaldast frá stofnun; árið 2004 voru þau 200 milljónir, tíu árum síðar tæpur einn milljarður og í fjárlögum ársins 2018 námu þau 2,7 milljörðum.

Enn þýðingarmeira er þó að Tækniþróunarsjóður styrkir í dag mun fjölbreyttari verkefni en áður. Árið 2008 bættust við tveir nýir styrkjaflokkar, annars vegnar frumherjastyrkir fyrir sprotafyrirtæki og frumkvöðla með verkefni á byrjunarstigi, og hins vegar markaðsstyrkir fyrir ung fyrirtæki. Þar með hófst skörun við verkefnið Átak til atvinnusköpunar sem hefur aukist síðan. Tækniþróunarsjóður er nú með fimm flokka fyrirtækjastyrkja fyrir verkefni á hinum ólíkustu þróunarstigum, auk einkaleyfastyrkja og styrkja til hagnýtra rannsókna. Reynslan sýnir að töluvert er um að sótt sé um styrki bæði til Átaksins og Tækniþróunarsjóðs.

Stjórnarformennska í Átaki til atvinnusköpunar hefur frá upphafi verið í höndum aðstoðarmanns þess ráðherra sem fer með málefni iðnaðar og viðskipta. Enn fremur hefur sú venja myndast að ráðherra hverju sinni ákveði sérstakar áherslur í úthlutunum Átaksins.

Ljóst er að fjölmörg góð verkefni hafa hlotið stuðning úr Átakinu. Engu að síður er það mat ráðherra að betur fari á því að þau verkefni, sem fram til þessa hafa sótt um styrki til Átaksins, fái hér eftir frekar umfjöllun á vegum Tækniþróunarsjóðs. Sjóðurinn starfar eftir lögum um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun og hefur samkvæmt þeim hlutverk sem samræmist vel stuðningi við verkefni af því tagi sem Átak til atvinnusköpunar hefur helst stutt við.

Eftir sem áður munu frumkvöðlar geta sótt um handleiðslu og ráðgjöf hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, sem margir umsækjendur hjá Átakinu hafa nýtt sér á undanförnum árum.

Við endurskoðun á ráðstöfun þessara fjármuna hafa komið fram hugmyndir, svo sem frá Nýsköpunarmiðstöð, um hvernig mætti verja þeim, eða hluta þeirra, með öðrum hætti. Þessar hugmyndir verða teknar til nánari skoðunar á næstunni en engu að síður er gert ráð fyrir að meirihluti fjárheimilda Átaksins verði ekki nýttur og falli þar með niður.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

9. Nýsköpun og uppbygging

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum