Hoppa yfir valmynd
Félagsmálaráðuneytið

Fjögurra milljóna króna styrkur til Barnahúss á 20 ára afmæli þess

Ásmundur Einar Daðason flytur ávarp í Hörpu - myndVelferðarráðuneytið

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, tilkynnti í dag um fjögurra milljóna króna styrk til Barnahúss sem hann, dómsmálaráðherra og lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra hafa ákveðið að veita Barnahúsi. Ráðherra sagði frá ákvörðuninni á afmælisráðstefnu Barnahúss í Hörpu í dag.

Ráðherra ræddi meðal annars um hvernig tilkoma Barnahúss á sínum tíma hefði leitt til grundvallarbreytingar á meðferð mála þegar grunur leikur á börn hafi verið misnotuð og einnig hve skilningur samfélagsins á velferð barna og mikilvægi barnaverndar hefði aukist og þroskast með starfsemi þess. Það mætti ekki síst þakka þeirri þverfaglegu nálgun sem innleidd var með starfsemi Barnahússins.

Að afmælisráðstefnunni lokinni hófst norræn ráðstefna um velferð barna þar sem yfir 400 sérfræðingar frá Norðurlandaþjóðunum og víðar eru skráðir til þátttöku. Félags- og jafnréttismálaráðherra flutti setningarávarp við upphaf hennar þar sem hann gerði að umtalsefni áherslu sína á málefni barna, fjallaði um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, eða Barnasáttmálann eins og hann er gjarna kallaður og ræddi um mikilvægi snemmtækrar íhlutunar. Ráðherra boðaði aukið samstarf milli ráðuneyta, stofnana og sveitarfélaga í þeim tilgangi að brjóta niður múra milli kerfa, bæta þjónustu í þágu barna og skapa barnvænt samfélag.

Á myndinni hér að neðan er Ásmundur Einar Daðason ásamt Mörtu Santos Pais, sérlegum sendifulltrúa framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna varðandi ofbeldi gegn börnum og einn af sérfræðingunum á bak við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

Ásmundur Einar Daðason og Marta Santos Pais

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira