Hoppa yfir valmynd
12. september 2018 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Eflum íslenskt mál til framtíðar: heildstæð nálgun

Aðgerðir stjórnvalda sem miða að því að styrkja stöðu íslenskrar tungu voru kynntar á fjölmiðlafundi Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra í dag. Aðgerðirnar snerta ólíkar hliðar þjóðlífsins en markmið þeirra allra ber að sama brunni; að tryggja að íslenska verði áfram notuð á öllum sviðum íslensks samfélags. Til grundvallar aðgerðunum er eindreginn vilji stjórnvalda til að tryggja framgang og framtíð íslenskrar tungu meðal annars með stuðningi við íslenska bókaútgáfu, einkarekna fjölmiðla, máltækni og menntun.

Stuðningur við einkarekna fjölmiðla
Fjölmiðlar hafa mikilvægu hlutverki að gegna í lýðræðissamfélagi við miðlun upplýsinga og sem vettvangur umræðu og skoðanaskipta. Þeirra menningarlega hlutverk er brýnt, þeir spegla sögu okkar og sjálfsmynd og viðhalda íslenskri tungu. Íslenskt efni í fjölmiðlum, hvort heldur frumgert, þýtt, textað, táknmálstúlkað eða talsett, skiptir lykilmáli fyrir íslenska tungu og þróun hennar. Þess vegna er mikilvægt að stuðla að heilbrigðu rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla, leiðrétta þá skekkju sem skapast af sterkri stöðu Ríkisútvarpsins á fjölmiðlamarkaði og tæknibreytingum sem breytt hafa tekjumöguleikum fjölmiðla.
Ríkisstjórnin mun hrinda eftirtöldum aðgerðum í framkvæmd:
• Ritstjórnarkostnaður rit- og ljósvakamiðla verður endurgreiddur að hluta.
• Dregið verður úr umsvifum Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði og þannig sköpuð tækifæri fyrir einkarekna fjölmiðla að auka sínar auglýsingatekjur.
• Virðisaukaskattur rafrænna áskrifta lækkaður úr 24% í 11%.
• Opinber stuðningur við textun, táknmálstúlkun og talsetningu í myndmiðlum verður aukinn.
• Skattlagning vegna kaupa á auglýsingum verður samræmd milli íslenskra og erlendra netmiðla til að styrkja samkeppnisstöðu íslenskra miðla.
• Gagnsæi í opinberum auglýsingakaupum verður aukið.

Árlegt framlag vegna beinna aðgerða er áætlað um 450-500 milljónir kr., auk þess sem ráðgert er að umsvif Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði muni minnka um rúmlega 500 milljónir kr.

Stuðningur við íslenska bókaútgáfu
Íslendingar eru bókaþjóð og mikilvægi hins ritaða máls er ótvírætt. Kveðið er á um stuðning við íslenska bókaútgáfu í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og undanfarin ár hefur einnig verið unnið markvisst að því að bæta læsi á Íslandi, einkum meðal barna og ungmenna. Lestrarfærni er lykill að lífsgæðum og bækur grundvöllur símenntunar alla ævi. Til að mæta sem best þeim vanda sem íslensk bókaútgáfa stendur frammi fyrir verður sett á laggirnar nýtt stuðningskerfi fyrir íslenska bókaútgáfu sem felur í sér 25% endurgreiðslu vegna beins kostnaðar við útgáfu íslenskra bóka. Áætlaður árlegur kostnaður vegna þessa er um 400 milljónir kr. frá og með árinu 2019.

Þingsályktun um íslensku sem þjóðtungu og opinbert mál á Íslandi
Íslensk tunga er undirstaða íslenskrar menningar og í nýrri þingsályktunartillögu um íslensku sem lögð verður fyrir Alþingi í haust eru lagðar til aðgerðir í 22 liðum henni til stuðnings. Markmið þeirra er meðal annars að efla íslenskukennslu, auka framboð á menningarlegu efni á íslensku og stuðla að vitundarvakningu um mikilvægi og sérstöðu tungumálsins. Meðal aðgerðanna eru gerð nýrrar málstefnu og viðmiðunarreglur um notkun íslensku í upplýsinga- og kynningarefni.

Hús íslenskunnar rís
Áætlanir gera ráð fyrir að framkvæmdir við Hús íslenskunnar hefjist í vetur og ljúki í október 2021. Verkið er tilbúið til útboðs og fjármögnun þess tryggð en hönnun hússins hefur nú verið rýnd og uppfærð. Hús íslenskunnar mun hýsa fjölbreytta starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Íslensku- og menningardeildar Háskóla Íslands. Þar verður miðstöð rannsókna og kennslu í íslenskum fræðum og varðveitt frumgögn um íslenska menningu; handrit, skjöl, orða- og nafnfræðisöfn og þjóðfræðasöfn. Byggingin verður þrjár hæðir og kjallari, um 6.500 fm auk bílakjallara.

Íslenska í stafrænum heimi – tungumálið, tölvur og tækniþróun
Tungumálið hefur ekki haldið í við öra tækniþróun á undanförnum árum. Sjálfvirkni og þróun sem kennd er við fjórðu iðnbyltinguna mun að óbreyttu ekki gera ráð fyrir íslensku og brýnt er að bregðast við svo erlend tungumál – aðallega enska – verði ekki alls ráðandi við notkun tækninnar hérlendis í framtíðinni. Til að tryggja að íslenska verði gjaldgeng í stafrænum heimi, rafrænum samskiptum og upplýsingavinnslu sem byggir á tölvu- og fjarskiptatækni er nú unnið eftir verkáætluninni Máltækni fyrir íslensku 2018-2022. Í því felst að þróa og byggja upp tæknilega innviði sem nauðsynlegir eru til þess að brúa bil milli talmáls og búnaðar, s.s. talgreini, talgervil, þýðingarvél og málrýni/leiðréttingarforrit. Verkáætlunin er að fullu fjármögnuð í núverandi fjármálaáætlun, en áætlaður heildarkostnaður ríkisins við hana er 2,2 milljarðar króna á tímabilinu.

Kynning á fjölmiðlafundi 12. september 2018

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira