Velferðarráðuneytið

Breyting á lyfjalögum og lögum um landlækni og lýðheilsu til umsagnar

Velferðarráðuneytið Skógarhlíð - myndVelferðarráðuneytið

Óskað er eftir athugasemdum við drög að frumvarpi heilbrigðisráðherra til lagabreytinga sem heimilar hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum að ávísa hormónatengdum getnaðarvörnum. Markmiðið er að bæta aðgengi kvenna að kynheilbrigðisþjónustu, efla og styrkja þjónustuna og að nýta betur fagþekkingu hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra innan heilbrigðisþjónustunnar á þessu sviði. Frumvarpið hefur verið birt í samráðsgátt stjórnvalda og er umsagnarfrestur til 24. september næstkomandi.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að heimild hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra til að ávísa hormónatengdum getnaðarvörnum verði bundin því skilyrði að viðkomandi starfi á heilbrigðisstofnun þar sem heilsugæsla, kvenlækninga- eða fæðingarþjónusta er veitt. Landlæknir mun veita hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum leyfi til lyfjaávísunar að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum sem fram koma í reglugerð sem ráðherra setur. Meðal þessara skilyrða verður að viðkomandi leyfisumsækjandi hafi sótt og staðist fræðilegt og klínískt námskeið um lyfjaávísanir. Ákvörðun um áherslur, innihald, fyrirkomulag og framkvæmd námskeiðsins verður hjá Embætti landlæknis. Embætti landlæknis mun síðan hafa eftirlit með lyfjaávísunum hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra sem heimild hafa fengið til að ávísa hormónatengdum getnaðarvörnum, sams konar eftirlit og embættið hefur með lyfjaávísunum lækna og tannlækna í samræmi við ákvæði laga um landlækni og lýðheilsu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn