Hoppa yfir valmynd
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Starfshópur um stefnu ríkisins um málefni sveitarfélaga hefur störf

Starfshópurinn samankominn á fyrsta fundi. F.v.: Stefanía Traustadóttir, Aldís Hafsteinsdóttir, Ragnhildur Hjaltadóttir, Sigtryggur Magnason, Guðni Geir Einarsson, Valgarður Hilmarsson, Karl Björnsson, Dagur B. Eggertsson, Sóley Björk Stefánsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson. - mynd

Starfshópur sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skipaði um stefnu ríkisins um málefni sveitarfélaga hittist í fyrsta sinn á mánudaginn. Hlutverk hópsins er að vinna tillögur að stefnumótandi áætlun til fimmtán ára um málefni sveitarfélaga, sem meðal annars er ætlað samræma stefnumótun ríkis og sveitarfélaga með heildarhagsmuni sveitarstjórnarstigsins að leiðarljósi.

Stefnumótun ríkisins á þessu sviði er nýmæli og felur í sér að gerð langtímaáætlunar í takt við aðra stefnumótun og áætlanagerð á verksviði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, þ.e. samgönguáætlun, fjarskiptaáætlun og byggðaáætlun og sóknaráætlanir.

Víðtækt og gott samráð um nýja áætlun
Í aðsendri grein sem Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra ritaði í Morgunblaðið í morgun, kveðst hann binda miklar vonir við starfshópinn og þá vinnu sem framundan er, sem meðal annars feli í sér víðtækt og gott samráð um allt land. „Það er mín von og trú að afurðin verði áætlun sem samstaða er um og stuðli markvisst að eflingu sveitarfélaganna á Íslandi til hagsbóta fyrir íbúa þeirra og landið allt,“ segir Sigurður.

Við gerð tillagna að stefnumótandi áætlun og aðgerðaáætlun skal starfshópurinn eiga samráð við ráðuneyti og stofnanir ríkisins, þ.m.t. stýrihóp Stjórnarráðsins um byggðamál. Þá skulu tillögurnar unnar í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélög. Loks skal haft samráð við hagsmunaaðila eftir þörfum og skal almenningi gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum og athugasemdum í opnu samráðsferli.

Stórauka þarf stuðning Jöfnunarsjóðs við sameiningar
Ráðherra segir í grein sinni að meðal þess sem stefnumótunin muni taka til sé stærð og geta sveitarfélaga til að rísa undir lögbundinni þjónustu og vera öflugur málsvari íbúa sinna. „Þá hef ég áður lýst yfir að stórauka þurfi fjárhagslegan stuðning Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga við sameiningar. Mikilvægt er að nýsameinuð sveitarfélög hafi gott fjárhagsleg svigrúm til að vinna að nauðsynlegri endurskipulagningu á stjórnsýslu og þjónustu í samræmi við forsendur sameiningar og hafi svigrúm til að styðja við nýsköpun.“

Í starfshópnum eru tveir fulltrúar skipaðir af ráðherra, Valgarður Hilmarsson, fyrrverandi sveitarstjóri Blönduósbæjar, sem jafnframt er formaður starfshópsins, og Sóley Björk Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi í Akureyrarbæ. Þá eru tveir fulltrúar skipaðir af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, þau Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, og Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og bæjarstjóri í Hveragerði.

„Efling sveitarstjórnarstigsins.“ Grein Sigurðar Inga Jóhannsson í Morgunblaðinu 30. janúar

Nánar um starfshópur um stefnumótandi áætlun ríkisins um málefni sveitarfélaga

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira