Hoppa yfir valmynd
8. febrúar 2019 Heilbrigðisráðuneytið

Útboði vegna kaupa á sjúkrabílum frestað

Sameiginleg tilkynning heilbrigðisráðuneytisins og Rauða krossins á Íslandi:

Opnun útboðs vegna fyrirhugaðra kaupa á sjúkrabílum sem átti að fara fram 7. febrúar hefur verið frestað til 13. mars næstkomandi. Unnið er að samkomulagi milli heilbrigðisráðuneytisins og Rauða krossins á Íslandi um lyktir samnings um útvegun og rekstur sjúkrabíla sem Rauði krossinn hefur sinnt  til fjölda ára.

Um er að ræða langt samningssamband og flókna yfirfærslu á mikilvægri þjónustu og þess vegna hefur reynst tímafrekt að vinna úr stöðunni frá því að viðræður hófust í mars. Á þeim tveimur áratugum sem samningar hafa verið í gildi hefur samstarfið verið farsælt og traust ríkt milli aðila. Rauði krossinn lagði fram sjúkrabíla og búnað í upphafi og lagði rekstrinum til fjármuni á samningstímanum. Viðræður hafa snúið að fjárhagslegu uppgjöri og yfirfærslu verkefnisins við samningslok.

Samkvæmt sameiginlegri ákvörðun heilbrigðisráðuneytisins og Rauða krossins var samið við ráðgjafarfyrirtækið Capacent um að taka saman greinargerð um málið. Capacent skilaði greinargerðinni með niðurstöðum sínum í gær, 7. febrúar. Greinargerðin er til skoðunar hjá aðilum málsins sem hafa orðið ásáttir um að ræða ekki efni hennar opinberlega að svo stöddu.

Heilbrigðisráðuneytið og Rauði krossinn á Íslandi
Reykjavík, 8. febrúar 2019

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum