Hoppa yfir valmynd
20. mars 2019 Innviðaráðuneytið

Ráðherrafundur OECD: Uppbygging samgöngukerfisins og endurgreiðslur á flugi

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra flytur ávarp á ráðherrafundi OECD um byggðaþróun. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hélt í dag erindi um fjárfestingar í innviðum á ráðherrafundi OECD um stefnumörkun í byggðaþróun. Yfirskrift umræðunnar var „Smart spending: Investment in quality infrastructure“.

Í erindi sínu fjallaði Sigurður Ingi um þau brýnu verkefni sem Íslendingar standa frammi fyrir í samgöngukerfi landsins sem hafa skapast, ekki síst, vegna gríðarlegrar fjölgunar ferðamanna sem sækja Ísland heim en þeim hefur eins og kunnugt er fjölgað úr hálfri milljón í tvær og hálfa milljón á örfáum árum. Hann sagði einnig frá þeirri vinnu sem stendur yfir við að skoða ólíkar fjármögnunarleiðir samgöngukerfisins en fyrirsjáanlegt er að með vaxandi hlutfalli nýorkubíla í bílaflota landsmanna hrapi tekjur af olíu- og bensíngjaldi sem hingað til hefur staðið straum af uppbyggingu og viðhaldi vegakerfisins. Ráðherra lagði áherslu á að til að skapa sátt yrði að vera virkt samtal milli ólíkra aðila og þannig skapa sterka sýn.

Í lok síns máls lýsti ráðherra áformum ríkisstjórnarinnar um endurgreiðslur á flugfargjöldum fyrir íbúa landsbyggðarinnar sem samþykkt var sem hluti af samgönguáætlun á Alþingi og kemur til framkvæmda árið 2020.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum