Hoppa yfir valmynd
28. júní 2019 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ríkisreikningur 2018 – Sterk staða ríkissjóðs

Uppgjör ríkisreiknings fyrir árið 2018 hefur nú verið birt og ríkisreikningur sendur Alþingi. Samkvæmt ríkisreikningi var rekstrarafkoman jákvæð um 84 ma.kr til samanburðar við 39 ma.kr. afgang árið 2017. Þessi niðurstaða sýnir glögglega sterka stöðu ríkisfjármálanna. Tekjur námu samtals 828 ma.kr. og rekstrargjöld 780 ma.kr. Hrein fjármagnsgjöld voru neikvæð um 56 ma.kr. en hlutdeild í afkomu félaga í eigu ríkisins jákvæð um 91 ma.kr

„Komið er að vatnaskilum í efnahagslífinu eftir einstaklega þróttmikinn og langan uppgangstíma með miklum tekjuauka heimila, fyrirtækja og ríkissjóðs. Jákvæð afkoma ríkissjóðs árið 2018 endurspeglar styrk hagkerfisins þrátt fyrir að tekið hafi að halla undan fæti á síðari hluta ársins. Undanfarin ár hafa einkennst af nokkurri aukningu útgjalda í takt við auknar tekjur og ekki síst lækkandi vaxtabyrði ríkissjóðs. Með skuldalækkun og endurfjármögnun lána á hagstæðari kjörum hefur viðnámsþróttur ríkisfjármálanna verið aukinn til muna sem kemur að góðum notum nú þegar hægir á hagvexti,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra um niðurstöður ríkisreiknings.

Ríkisreikningur 2018 er nú birtur í annað sinn í samræmi við ákvæði laga um opinber fjármál. Unnið er að innleiðingu nýrra reikningsskila eftir þriggja ára áætlun sem gert er ráð fyrir að verði að fullu komin til framkvæmda við framlagningu ríkisreiknings 2019.

Afkoma 5 ma.kr. betri en gert var ráð fyrir í fjárlögum

Þegar afkoma ríkissjóðs samkvæmt ríkisreikningi er borin saman við afkomumarkmið fjármálaáætlunar og fjárlaga er það gert á hagskýrslustaðli (GFS). Á þeim grunni er heildarafkoma ríkissjóðs árið 2018 jákvæð um 38 ma.kr. og því um 5 ma.kr. betri en fjárlög gerðu ráð fyrir sem undirstrikar þann þrótt sem var í hagkerfinu á síðasta ári og sterka framkvæmd fjárlaga.

Efnahagsreikningur sem tók umtalsverðum breytingum í ársbyrjun 2017 þegar m.a. farið var eignfæra varanlega rekstrarfjármuni gefur nú góða heildarmynd af eignum, skuldum og eiginfjárstöðu ríkissjóðs. Heildareignir í árslok 2018 eru 2.224 ma.kr., skuldir 1.611 ma.kr og eigið fé 613 ma.kr. sem er hækkun um 117 ma.kr.

„Nú er ljóst að hagvöxtur verður minni á næstu árum en verið hefur, einkum vegna samdráttar í ferðaþjónustu. Í ljósi þessa verður nú dregið úr útgjaldavexti ríkisins en að auki mun jákvæð afkoma hins opinbera lækka í takt við hægari hagvöxt. Meginverkefni komandi ára verður að bæta nýtingu fjármuna og auka skilvirkni og framleiðni hjá hinu opinbera. Þannig verður staðinn vörður um mikilvæga uppbyggingu innviða og þjónustu ríkisins á sama tíma og viðnámsþróttur ríkisfjármálanna verður styrktur enn frekar,“ segir fjármála- og efnahagsráðherra.

Ríkisreikningur 2018

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum