Hoppa yfir valmynd
23. september 2019 Utanríkisráðuneytið

Ísland tekur þátt í gagnrýni á Sádi-Arabíu

Mannréttindaráð SÞ í Genf - myndUN Photo/Violaine Martin

Ísland var í hópi ríkja sem í dag gagnrýndi ástand mannréttindamála í Sádí-Arabíu í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Fastafulltrúi Ástralíu flutti ávarpið að þessu sinni og tók þar við keflinu af fastafulltrúa Íslands sem flutti yfirlýsingu fyrir hönd hópsins fyrr á árinu. Sú yfirlýsing vakti athygli á heimsvísu enda var það í fyrsta sinn sem fjallað var um mannréttindi í Sádí-Arabíu með afgerandi hætti á vettvangi mannréttindaráðsins. 
 
„Frumkvæði Íslands í málefnum Sádí-Arabíu sýndi að slíkar aðgerðir auka þrýsting á viðkomandi stjórnvöld svo um munar enda vakti það heimsathygli,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. „Eins og fram kemur í yfirlýsingunni í dag er víða pottur brotinn hjá Sádum en þó hefur orðið nokkur framför á undanförnum mánuðum. Ísland er víða tekið sem dæmi um hversu miklu lítil ríki geta áorkað ef viljinn er fyrir hendi og ég er mjög stoltur af því góða samstarfi sem við höfum átt við vinaþjóðir á þessum vettvangi.“
 
Í yfirlýsingunni er því fagnað að stjórnvöld í Sádí-Arabíu hafa nýlega tilkynnt að konur hafi framvegis leyfi til að ferðast og bera ábyrgð á börnum sínum án þess að til komi sérstakt leyfi eigimanna þeirra eða feðra. Ríkin sem að yfirlýsingunni standa lýsa hins vegar áhyggjum af því að baráttufólk fyrir mannréttindum og jafnrétti og blaðamenn sem gagnrýna stjórnvöld sæti enn ofsóknum af hálfu stjórnvalda. Fréttaflutningur af pyntingum í fangelsum landsins, fangelsun án dóms og laga, og öðru þess háttar valdi einnig sérstökum áhyggjum. Þá er áréttað að upplýsa verði að fullu um örlög blaðamannsins Jamals Khashoggi, sem fullyrt er að hafi verið drepinn í ræðismannsskrifstofu Sádí-Arabíu í Istanbul í Tyrklandi fyrir ári síðan, og draga verði þá til ábyrgðar sem stóðu að morðinu. 
 
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur áður gagnrýnt mannréttindaástandið í Sádí-Arabíu í ræðum sínum í mannréttindaráðinu og hvatt aðildarríki mannréttindaráðsins til að ganga á undan með góðu fordæmi.

Nú stendur yfir 42. fundalota mannréttindaráðsins sem er sú síðasta sem Ísland tekur þátt í sem fullgildur meðlimur í ráðinu. 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum