Hoppa yfir valmynd
11. október 2019 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Forgangsmál að tryggja öruggar samgöngur

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, flytur ávarp á ráðstefnunni Slysavarnir á vegum Landsbjargar. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, fjallaði um öryggi í samgöngum í ávarpi sínu í morgun á ráðstefnunni Slysavarnir sem Landsbjörg heldur á tveggja ára fresti. Til ráðstefnunnar er kallað fagfólki úr ýmsum stéttum sem vinna að slysavörnum og öryggismálum á Íslandi.

Ráðherra sagði að öruggar samgöngur væru forgangsmál í tillögu að samgönguáætlun sem mælt verður fyrir á Alþingi í nóvember. Þar væri gengið út frá því að banaslys í samgöngum væru ekki ásættanleg og að allt skuli gert sem í mannlegu valdi stendur til að koma í veg fyrir þau. Það yrði gert meðal annars með flýtingu mikilvægra vegaframkvæmda

Sigurður Ingi hrósaði miklum árangri sem hafði náðst í öryggismálum á síðustu árum og ættu viðbragðsaðilar; lögregla, slökkvilið, Landhelgisgæslan, heilbrigðisstarfsmenn og síðast en ekki síst sjálfboðaliðar björgunarsveitanna, ríkulegan þátt í þeim árangri. 

„Ísland hefur með ykkar aðstoð náð eftirtektarverðum árangri í siglingum þar sem banaslys eru orðin afar fátíð og í nokkur ár hefur engin látið lífið á sjó. Þar vegur gæfuríkt samstarf við Slysavarnafélögin þungt, að ekki sé minnst á Slysavarnaskóla sjómanna sem hefur lagt grunninn að þeim frábæra árangri,“ sagði Sigurður Ingi.

Starfshópur um eflingu björgunarskip

Hann sagði slysavarnafélögin hafa unnið þrekvirki við björgun á sjó. Ríkisstjórnin hafi þess vegna sett á laggirnar starfshóp sem í samstarfi við félögin mun vinna tillögu að eflingu björgunarskipanna sem mörg hver eru komin til ára sinna.

Ráðherra sagði að eftir mörg góð ár í flugi hafi á þessu ári orðið tvö alvarlega slys með sorglegum afleiðingum. Sömuleiðis hafi okkur ekki borið gæfu til að koma í veg fyrir umferðarslys. Hann minnti á að árlegur samfélagslegur kostnaður af umferðarslysum er metinn um 40 til 60 ma.kr. fyrir utan tilfinningalegt tjón.

En hvað veldur alvarlegustu slysunum og hvernig komum við í veg fyrir þau? Ávallt þarf að hafa í huga að  mannleg mistök eru óhjákvæmileg  og það er mikilvægt að við allt skipulag, hönnun og gerð allra samgöngumannvirkja sé tekið mið af því.

Fræðsla lykillinn

Á ávarpi sínu sagði ráðherra að mannlegi þátturinn væri oft orsakavaldur slysa. Til að breyta hegðun þurfi markvissa og góða fræðslu. Í þeim efnum hafi samstarf ráðuneytisins og Samgöngustofu við sveitir Landsbjargar verið ómetanlegt. Verkefnið „Vertu  snjall undir stýri“ væri til að mynda þörf áminning um að nota aldrei snjalltæki undir stýri.

+ Ræða ráðherra á ráðstefnu Landsbjargar

  • Slysavarnir 2019 - ráðstefna Landsbjargar.
  • Slysavarnir 2019 - ráðstefna Landsbjargar.
  • Eliza Reid, forsetafrú, flytur ávarp á ráðstefnunni Slysavarnir á vegum Landsbjargar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira