Hoppa yfir valmynd
23. október 2019 Innviðaráðuneytið

Tímamót í öryggismálum fiskiskipa

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, flytur ávarp á ráðherraráðstefnu um öryggi fiskiskipa í Torremolinos á Spáni. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, ávarpaði fyrr í vikunni ráðherraráðstefnu um öryggi fiskiskipa í Torremolinos á Spáni. Þar undirrituðu um 50 þjóðir samning um að þau hygðust fullgilda Höfðaborgarsamþykktina, alþjóðlegan samning um öryggismál stærri fiskiskipa (24 metra og lengri), sem Ísland hefur í mörg ár þrýst á að verði fullgiltur.

Um mikil tímamót verður að ræða þegar samningurinn öðlast gildi en með yfirlýsingu landanna mun það gerast árið 2022. Ísland skrifaði undir yfirlýsinguna en hafði fullgilt samþykktina árið 2013.

Sigurður Ingi sagði í ræðu sinni að Ísland hafi verið eitt af fyrstu ríkjum heims til að innleiða alþjóðlegar reglur um öryggi fiskiskipa. Reynslan hafi sýnt að á Íslandi hafi náðst eftirtektarverður árangur sem önnur lönd gætu horft til. Banaslysum á sjó hafi fækkað um 90% á árunum 1970 til 2010, og slysum fækkað úr 203 í 21. Ráðherra hvatti aðrar þjóðir til að fullgilda Höfðaborgarsamþykktina. Ísland hefði borið gæfu til að fara í gegnum síðustu ár án mannskaða á sjó og nefna mætti að engin slík slys hefðu átt sér stað síðustu þrjú og hálft ár. Slíkt væri ómetanlegur árangur á heimsmælikvarða.

Ráðstefnan var haldin í samstarfi við Alþjóðsiglingamálastofnunina (IMO) og ríkisstjórn Spánar, með stuðningi Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) og góðgerðarsjóða Pew (e. Pew Charitable Trusts). Yfir 500 fulltrúar hvaðanæva úr heiminum sóttu ráðstefnuna.

Markmið ráðstefnunnar var að stuðla að fullgildingu Höfðaborgarsamþykktarinnar. Gildistaka hennar mun einnig stuðla að því að hindra útbreiðslu ólögmætra, ótilkynntra og stjórnlausra fiskveiða (IUU fishing) með því að setja alþjóðlega öryggisstaðla fyrir fiskiskip. Ísland fullgilti samþykktina árið 2013. Fyrir ráðstefnuna þurfti í það minnsta 11 aðildarríki IMO til viðbótar að fullgilda samninginn svo hann öðlist gildi alþjóðlega sem hefur átt sér langan aðdraganda.

Yfir 30 ráðherrar víðsvegar að úr heiminum mættu til að  fjalla um ávinninginn af því að innleiða samþykktina. Dæmi um slíkan ávinning eru færri banaslys, bætt vinnuskilyrði, minni mengun sjávar, aukin vernd heimskautasvæða, efling fullnustuaðgerða til að berjast gegn ólögmætum, ótilkynntum og stjórnlausum fiskveiðum og loks minni áhætta fyrir þá sem sinna leitar- og björgunarþjónustu.  

Að ráðstefnunni lokinni tóku  fulltrúar Íslands þátt í sérstökum vinnuhópi IMO, ILO og FAO fund um ólögmætar, ótilkynntar og stjórnlausar fiskveiðar.
 
Á öðrum degi ráðstefnunnar var staðið fyrir pallborðsumræðum um ýmsar ráðstafanir sem gerðar hafa verið til að auka öryggi fiskiskipa um allan heim, hefta útbreiðslu ólögmætra fiskveiða og aðgerða á heimsvísu til að koma í veg fyrir slíkt. Fulltrúar frá ýmsum aðildarríkjum, stofnunum og frjálsum félagasamtökum tóku þátt í umræðunum, þar með talið eftirtaldir fulltrúar frá Íslandi; Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, Sverrir Konráðsson, fagstjóri í siglingum og þýðingum hjá Samgöngustofu, Hjalti Hreinsson, sérfræðingur hjá PAME-vinnuhópi Norðurskautsráðsins og Ari Guðmundsson, ráðgjafi PEW og fyrrverandi fulltrúi FAO og Siglingastofnun Íslands. Auk þess flutti Árni Mathiesen, aðstoðarframkvæmdastjóri hjá FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, erindi á ráðstefnunni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum