Hoppa yfir valmynd
11. nóvember 2019 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Álit AGS eftir heimsókn til Íslands: Rétt hagstjórnarviðbrögð í kjölfar efnahagsáfalla

Slökun í aðhaldi ríkisfjármála og lækkun stýrivaxta í kjölfar efnahagsáfalla fyrr á árinu voru rétt hagstjórnarviðbrögð af hálfu stjórnvalda og hafa mildað höggið á hagkerfið. Stoðir íslensks efnahagslífs eru sterkar og grundvöllur er fyrir því að hagvöxtur taki senn við sér. Þetta er meðal þess sem kemur fram í áliti sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins(AGS) að lokinni reglubundinni heimsókn hennar til Íslands þar sem fram fór úttekt sjóðsins á íslensku efnahagslífi.

Sendinefnd AGS hefur verið hér á landi undanfarna daga og fundað m.a. með ráðuneytum, Seðlabankanum, Fjármálaeftirlitinu og fulltrúum vinnumarkaðar. AGS vinnur á eins til tveggja ára fresti úttekt um á grundvelli 4. greinar stofnsáttmála sjóðsins (e. Article IV Consultation). Álitið sem birt er í dag inniheldur frumniðurstöður úttektarinnar en skýrsla með heildarniðurstöðum kemur út síðar.

Á meðal þess sem fram kemur í áliti sendinefndarinnar er eftirfarandi:

  • Hagstjórnarviðbrögð stjórnvalda í kjölfar falls WOW air og fleiri efnahagsáfalla fyrr á árinu voru í senn rétt og hröð. Er þar vísað til slökunar í aðhaldi ríkisfjármála til skamms og millilangs tíma ásamt lækkun stýrivaxta.
  • Hóflegar launahækkanir í kjarasamningum hafa einnig stuðlað að því að atvinnuleysi er minna en það hefði ella orðið. Jöfnuður á íslenskum vinnumarkaði er með þeim mesta í þróuðum hagkerfum.
  • Styrkar stoðir íslensks efnahagslífs og trúverðugleiki hagstjórnaraðila hafa leitt til þess að niðursveiflan nú er mildari en ella. Hagkerfið er í stakk búið til að taka við sér á ný. Útlit er fyrir að hagvöxtur aukist í um 2% til millilangs tíma.
  • Á meðal áskorana í íslensku efnahagslífi eru ytri og alþjóðlegir áhættuþættir, að treysta stoðir hagvaxtar til lengri tíma og að efla enn frekar eftirlit á fjármálamarkaði. Sameining Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans er til bóta og stuðlar m.a. að öflugra og sjálfstæðara fjármálaeftirliti.
  • Hagstjórnaraðilar hafa nægt svigrúm til að bregðast við ef hagvöxtur reynist lakari en nú er búist við. Umgjörð ríkisfjármála er til þess fallin að auka svigrúm og trúverðugleika ríkisfjármálastefnunnar. Búist er við því að skuldahlutfall hins opinbera lækki enn frekar til millilangs tíma. Trúverðugleiki peningastjórnarinnar er einnig mikill og verðbólguvæntingar nálægt markmiði.
  • Tækifæri eru til umbóta sem styrkja stoðir hagvaxtar til langs tíma. Í menntakerfinu eru tækifæri til umbóta, m.a. með því að bæta þjálfun og menntun kennara og bæta menntun fyrir börn innflytjenda.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum