Hoppa yfir valmynd
30. janúar 2020 Utanríkisráðuneytið

Frumvarp um áritanir fyrir íslenska viðskiptaaðila og fjárfesta lagt fram í Bandaríkjaþingi

Bandaríska þinghúsið í Washington DC - myndKevin McCoy, CC BY-SA 2.0
Mikilvægt skref í átt að bættum aðgangi íslenskra fjárfesta og viðskiptaaðila að bandaríska markaðnum var tekið með framlagningu frumvarps sem, ef samþykkt, mundi auðvelda íslenskum fyrirtækjum að senda stjórnendur og fjárfesta tímabundið til starfa í landinu. Framlagning frumvarpsins kemur í kjölfar fjölda funda utanríkisráðherra með lykilþingmönnum Bandaríkjaþings.

Íslandsfrumvarpið svonefnda var lagt fram í fulltrúadeild bandaríska þingsins í desember síðastliðnum. Frumvarpið (nr. 5496) sem ber heitið Increasing Trade and Investment from Iceland Act felur í sér að íslenskir fjárfestar og viðskiptafólk sem stunda viðskipti í Bandaríkjunum geti sótt um E-1 og E-2 vegabréfsáritanir.

„Íslendingar standa verr að vígi í þessum málum en ríkisborgarar nágrannaríkja okkar og ég hef lagt ríka áherslu á að rétta þessa stöðu og greiða aðgang íslenskra fjárfesta og viðskiptamanna að bandaríska markaðnum,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. „Verði frumvarpið að lögum hefur stórum áfanga verið náð í að efla tengsl okkar við Bandaríkin á sviði viðskipta.“

Síðastliðið ár hefur Guðlaugur Þór, í tíðum samskiptum sínum við fulltrúa bandarískra stjórnvalda og þingmenn beggja deilda bandaríska þingsins lagt ríka áherslu á að íslenskum ríkisborgurum verði bætt við lista þeirra ríkja sem aðgang hafa að áritunum fyrir fjárfesta og viðskiptaaðila. Framlagning frumvarpsins er árangur fjölda funda utanríkisráðherra, m.a. með lykilþingmönnum öldungadeildar og fulltrúadeildar þingsins dagana 18.-19. september 2019 í Washington, og eftirfylgni sendiráðs Íslands í Washington.

Íslensk fyrirtæki með starfsstöðvar eða mikil viðskipti í Bandaríkjunum mæta ákveðinni hindrun vegna reglna um vegabréfsáritanir til Bandaríkjanna sem hefur torveldað fyrirtækjum að senda stjórnendur og fjárfesta tímabundið til starfa í landinu. Í raun er því hér um að ræða viðskiptamál fremur en áritunarmál. Einungis er mögulegt að fá aðgang að áritanakerfinu með sérstakri löggjöf sem þarf samþykki meirihluta bæði í fulltrúa- og öldungadeild bandaríska þingsins.

Til þess að frumvarp verði að lögum þarf það fyrst að hljóta kosningu í fulltrúadeildinni og í framhaldi af því fer frumvarpið til meðferðar og kosningar í öldungadeild þingsins.

Viðskipti rædd í Washington

Undanfarið ár hefur verið lögð áhersla á eflingu samskipta við Bandaríkin á sviði viðskipta- og efnhagsmála og samráð ríkjanna aukist í takt við það. Í síðustu viku fundaði viðskiptasendinefnd með stjórnvöldum og öðrum tengiliðum í Washington DC um samstarf Íslands og Bandaríkjanna á sviði viðskipta- og efnahagsmála.

Sendinefndin hitti fulltrúa embættis viðskiptafulltrúa Bandaríkjaforseta (United States Trade Representative) til að ræða leiðir til að efla viðskipti milli ríkjanna og minnka viðskiptahindranir. Samráðið fer fram á vettvangi ríkjanna sem stofnað var til árið 2009 til að dýpka samstarf og efla viðskipti og fjárfestingar milli ríkjanna.

Þá átti nefndin fundi með fulltrúum viðskiptaráðuneytis og utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna, Haf- og loftslagsstofnun Bandaríkjanna (National Oceanic and Atmospheric Administration, NOAA) og sérfræðingum í viðskiptum og fríverslun hjá hugveitunum Heritage Foundation og Center for Strategic and International Studies.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum