Hoppa yfir valmynd
20. febrúar 2020 Innviðaráðuneytið

Núllsýn í umferðaröryggi er framtíðin

80 samgönguráðherrar komu saman á heimsþingi um umferðaröryggi sem haldið var í Stokkhólmi dagana 19. og 20. febrúar. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sótti heimsþing um umferðaröryggi (3rd Global Ministerial Conference on Road Safety), sem lauk í Stokkhólmi í dag. Markmið ráðstefnunnar var að miðla þekkingu og ræða leiðir til að auka umferðaröryggi á heimsvísu, meðal annars á grunni heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. 

Á ráðstefnunni voru um 80 samgönguráðherrar en auk þeirra stjórnendur og fulltrúar alþjóðastofnana og félagasamtaka og fulltrúar frá atvinnulífinu, þ.á m. bifreiðaframleiðendum og fjárfestingarfyrirtækjum. Alls tóku um 1.700 manns þátt í ráðstefnunni frá 140 löndum. 

Á heimsþinginu var fjallað um reynslu og innleiðingu Svía og nokkurra annarra ríkja á stefnu um núllsýn í umferðaröryggi (e. Vision Zero). Núllsýn felst í því að stefna skuli að því að engin banaslys eða alvarleg slys verði í umferðinni í náinni framtíð. Mikilvægt væri að viðurkenna ekki að banaslys í umferðinni geti verið viðunandi ástand og miða opinberar áætlanir, aðgerðir, fræðslu og eftirlit við núllsýn. Frá því að stefnan var innleidd í Svíþjóð árið 1997 hefur tekist að draga úr umferðarslysum um helming.

Sigurður Ingi segir að Ísland sé sannanlega ofarlega á heimsvísu í umferðaröryggi. „Umferðaröryggi er mikilvægasta verkefni okkar í samgöngum og við þurfum samstillt átak hér á landi til að tileinka okkur hugarfar um núllsýn í umferðaröryggi og útrýma banaslysum og alvarlegum slysum alfarið. Með samstilltu átaki og fræðslu hefur tekist að fækka slysum á sjó síðustu ár og áratugi svo um munar, en síðustu þrjú ár hefur ekkert banaslys orðið,“ segir hann.

Ráðherra segir að það skipti sköpum fyrir umferðaröryggi að aðskilja akstursstefnur á umferðarþyngstu þjóðvegum og stofnbrautum. „Það verða mikilvægustu öryggisaðgerðir sem við ráðumst í hér á landi í seinni tíð, segir ráðherra. „Einnig er mikilvægt að tryggja góða fræðslu og forvarnir vegna aukinnar snjallsímanotkunar í umferðinni. Ný umferðarlög sem tóku gildi um síðustu áramót taka harðar á notkun snjallsíma og heimildir til sekta hækkaðar,“ segir Sigurður Ingi.

  • Gústav Adolf Svíakonungur var verndari heimsþingsins og flutti ávarp við setningu þess. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum