Hoppa yfir valmynd
15. apríl 2020 Innviðaráðuneytið

Samið við Mannvit um óháða úttekt á Landeyjahöfn

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur samið við verkfræðistofuna Mannvit um að gera óháða úttekt á framkvæmdum í Landeyjahöfn. Mannvit átti lægsta tilboð í verkefnið í örútboði á vegum Ríkiskaupa, 8.060.000 kr. m. vsk., og fékk flest stig samkvæmt matslíkani Ríkiskaupa. Úttektinni verður lokið eigi síðar en 31. ágúst nk.

Með þingsályktunartillögu í desember sl. fól Alþingi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að gera úttektina í samræmi við greinargerð með tillögu að fimm ára samgönguáætlun sem Alþingi samþykkti fyrir árin 2019–2023. Í greinargerðinni er fjallað um endurbætur á Landeyjahöfn og að fjárframlögum vegna þeirra væri ætlað „að standa undir kostnaði við rannsóknir, öryggismál, gerð óháðrar úttektar og framkvæmdum sem auðvelda eiga að halda nægu dýpi í höfninni.“

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni um Landeyjahöfn var þess farið á leit að úttektin leiddi í ljós hvort hægt væri að gera þær úrbætur á Landeyjahöfn að dýpkunarþörf minnkaði verulega eða hyrfi, og í hverju slíkar úrbætur gætu falist. Loks var óskað eftir því til hvers konar dýpkunaraðferða þyrfti að grípa ef endurbætur þættu ekki gerlegar, af tæknilegum eða fjárhagslegum ástæðum.

Tryggja þarf að höfnin þjóni hlutverki sínu

„Vel rökstuddar og skilgreindar tillögur eftir óháða úttekt verða nýttar til að undirbúa útboð til endurbóta á höfninni. Mikilvægt er að úttektin einskorðist ekki aðeins við gögn og rannsóknir varðandi dýpi Landeyjahafnar heldur verði einnig litið til annarra þátta sem geta haft áhrif á nýtingu hafnarinnar. Ég bind vonir við að hægt verði að ráðast strax í úrbætur að lokinni úttektinni. Það er brýnt að vandað verði til verka þegar aflað er svara um hvað þurfi að gera til að tryggja að Landeyjahöfn geti þjónað hlutverki sínu að fullu,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. 

Í örútboðinu var gerð krafa um að tilboðsgjafar hefðu traustan skilning á þeim flóknu aðstæðum sem eru við höfnina og reynslu af strandverkfræði og sandflutningsrannsóknum. Við mat á hæfni bjóðenda voru einnig gefin stig fyrir verkefni sem unnin hafi verið við hafnargerð á útsettum sandströndum.

Viðamiklar rannsóknir hafa verið gerðar á aðstæðum við höfnina sem verktakar munu fá til að rýni. Vonast er til að þær varpi nægilega góðri mynd á þá krafta sem eru í umhverfi hafnarinnar að hægt sé að setja fram vel rökstuddar tillögur að úrbótum sem hrinda má í framkvæmd strax. Mögulega þarf þó að kanna tillögurnar frekar og útfæra í líkantilraunum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum