Hoppa yfir valmynd
21. apríl 2020 Menningar- og viðskiptaráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Öflugar aðgerðir í þágu nýsköpunar í aðgerðarpakka tvö

Efling nýsköpunar, fjármögnun sprota- og nýsköpunarfyrirtækja í samvinnu við fjárfesta og aðgerðir fyrir ferðaþjónustu til framtíðar eru meðal áhersluatriða stjórnvalda í viðspyrnu vegna áhrifa COVID-19 heimsfaraldursins. Þessir liðir, auk almennra aðgerða munu nýtast ferðaþjónustunni, nýsköpunarfyrirtækjum og öðrum rekstraraðilum til framtíðar.

„Í viðspyrnunni er sérstaklega mikilvægt að byggja upp atvinnugreinar sem byggja á nýsköpun og hugviti. Við höfum þegar tekið til fjölmargra úrræða og núna stígum við skref til framtíðar og sækjum fram með nýsköpun að leiðarljósi,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála,- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Ferðaþjónusta til framtíðar

Sértækar aðgerðir stjórnvalda í þágu ferðaþjónustu sem kynntar voru í fyrsta aðgerðapakka beinast að því að halda uppi innlendri fyrirspurn, auka atvinnu, byggja upp innviði og ráðast í alþjóðlegt markaðsátak. Allt mun þetta nýtast við uppbyggingu öflugrar atvinnugreinar þegar réttar aðstæður skapast á ný. Vinna er þegar hafin við kynningu og markaðssetningu erlendis og innanlands.

Í þeim alvarlega samdrætti sem ferðaþjónustan stendur nú frammi fyrir blasir við að almennar aðgerðir í þágu fyrirtækja munu ekki síst nýtast ferðaþjónustunni, auk þeirra sértæku aðgerða sem þegar hefur verið gripið til og kynntar voru í mars. Lausafjárvandi ferðaskrifstofa vegna endurgreiðslukrafna er einnig verulegur og munu stjórnvöld leggja til lagabreytingu þess efnis að heimilt verði að endurgreiða neytendum með inneignarnótum.

Efling nýsköpunar

Sérstök áhersla er lögð á að styðja við nýskapandi lausnir í heilbrigðis- og velferðarþjónustu sérstaklega á sviði fjarheilbrigðisþjónustu á landsvísu. Þegar hafa verið lagðar til 150 milljónir til verkefnisins.

Gert er ráð fyrir að framlög til endurgreiðslu á rannsóknar- og þróunarkostnaði verði aukin um 3.200 milljónir króna og leitast við að flýta endurgreiðslum vegna ársins 2019. Hlutfall endurgreiðslu verði hækkað úr 20% í 25% og heildarþak á greiðslur til einstakra aðila fer úr 600 til 900 milljóna króna.

Tækniþróunarsjóður hefur verið efldur um 700 milljónir króna og ferli umsókna hefur verið flýtt. Þessi auknu framlög munu skila sér í fleiri styrkúthlutum og fleiri aðilar munu geta fengið styrk við úthlutun í haust.

Alls munu 50 milljónir renna í Hönnunarsjóð Íslands og 120 milljónir til Kvikmyndasjóðs Íslands. Þessir fjármunir eru lagðir fram til þess að bregðast við vanda þessara greina vegna COVID-19. Um er að ræða útfærslu á áður ákveðnu fjármagni til skapandi greina.

Fjármögnun sprota- og nýsköpunarfyrirtækja í samvinnu við fjárfesta

Til að bregðast við aðstæðum í nýsköpunarumhverfinu hefur verið ákveðið að framlag stjórnvalda til Kríu – sprota - og nýsköpunarsjóðs, verði strax 1.300 milljónir króna á þessu ári sbr. frumvarp til laga um opinberan stuðning til fjárfestinga í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum sem var lagt fram í mars sl.

Kría hefur það hlutverk að fjárfesta í öðrum sérhæfðum sjóðum sem fjárfesta í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum, svokölluðum vísisjóðum eða venture capital sjóðum. Sjóðnum er ætlað að stuðla þannig að uppbyggingu, vexti og aukinni samkeppnishæfni atvinnulífsins með því að hér á landi verði til heilbrigt umhverfi áhættufjármagns til fjárfestingar í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum.

Með þessum breytingum getur Kría fyrr lagt til mótframlag til nýrra sjóða sem stofnaðir væru árið 2020. Þetta myndi hafa jákvæð áhrif á fjárfestingarumhverfið strax á þessu ári.

Til að bregðast við vanda lífvænlegra sprotafyrirtækja sem langt voru komin varðandi fjármögnun og fjárfestingasamninga, sem nú eru í uppnámi, munu stjórnvöld tímabundið bjóða mótframlag til fjárfestinga í sprotafyrirtækjum að ákveðnum skilyrðum undir heitinu Stuðnings Kría. Þessi aðgerð nýtist bæði sprotafyrirtækjum og fjárfestum í því ótrygga ástandi sem nú ríki og nýtist sem upptaktur að þeirri auknu samvinnu stjórnvalda sem stefnt er að með Kríu.

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
11. Sjálfbærar borgir og samfélög
9. Nýsköpun og uppbygging
8. Góð atvinna og hagvöxtur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum