Hoppa yfir valmynd
26. júní 2020 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisþjónustan leggi atvinnulífinu lið

Frá vinstri eru Auðunn Atlason sendiherra, Diljá Mist Einarsdóttir aðstoðarmaður utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, Einar Gunnarsson sendiherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, Pétur Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu, Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. - mynd

Starfshópur utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra um stuðning utanríkisþjónustunnar við útflutningsgreinar skilaði skýrslu sinni í dag. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, afhenti skýrsluna fulltrúum Samtaka atvinnulífsins, Viðskiptaráði Íslands og Íslandsstofu í dag.

Guðlaugur Þór skipaði starfshópinn í byrjun maí til þess að móta tillögur að því hvernig utanríkisþjónustan geti betur stutt við atvinnulífið vegna efnahagslega afleiðinga COVID-19 heimsfaraldursins. Starfshópurinn var skipaður þeim Auðunni Atlasyni sendiherra, Diljá Mist Einarsdóttur, aðstoðarmanni ráðherra, og Einari Gunnarssyni sendiherra. Hópurinn hefur nú sett fram tólf tillögur að breyttum áherslum í starfi utanríkisþjónustunnar á næstu mánuðum og misserum.

Guðlaugur Þór segir að hugmyndin að skipun hópsins hafi kviknað þegar mesti kúfurinn í borgaraþjónustu ráðuneytisins var yfirstaðinn. „Utanríkisþjónustan hefur sýnt hvers hún er megnug á undanförnum vikum. Með samstilltu átaki tókst að aðstoða þúsundir Íslendinga á heimleið og tók um helmingur alls starfsfólks utanríkisráðuneytisins þátt í þeirri vinnu. Hugmyndin er því að nýta styrkleika og sveigjanleika þjónustunnar í þágu atvinnulífsins enda þurfum við öll að standa saman næstu misserin til að standa vörð um velsæld landsmanna,“ sagði Guðlaugur Þór.

Í skýrslu starfshópsins Saman á útivelli – Framkvæmd utanríkisstefnu Íslands í kjölfar COVID-19 er að finna tólf tölusettar tillögur til ráðherra sem skiptast í fjóra flokka. Í fyrsta lagi er um að ræða tillögur sem lúta að efldri aðstoð við íslensk útflutningsfyrirtæki, í öðru lagi eru tillögur um gerð og rekstur alþjóðasamninga á sviði milliríkjaviðskipta, þriðji flokkur tillagna snýr að almennri meðferð utanríkismála og í fjórða lagi er um að ræða tillögur um starfshætti utanríkisþjónustunnar. Samandregið kemst starfshópurinn að þeirri niðurstöðu að beita megi utanríkisþjónustunni með afgerandi hætti til aukins stuðnings íslenskum útflutningshagsmunum en um leið að leggja verði áframhaldandi rækt við aðkallandi úrlausnarefni á sviði alþjóðamála sem ætla má að muni magnast upp vegna COVID-19.

Vinna hópsins byggði á innleggi frá aðilum atvinnulífsins og starfsfólki ráðuneytisins, og sömuleiðis á fjölmörgum samtölum við starfsfólk og haghafa. Tillögurnar eru settar fram til að skerpa enn betur á áherslum í starfi utanríkisþjónustunnar á næstu mánuðum og misserum og er það mat starfshópsins að tillögurnar séu vel til þess fallnar.

Skýrsla starfshópsins: Saman á útivelli – Framkvæmd utanríkisstefnu Íslands í kjölfar COVID-19


 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum