Hoppa yfir valmynd
1. október 2020 Innviðaráðuneytið

Innviðauppbygging í sögulegu hámarki á tímabili fjármálaáætlunar 2021-2025

Megináhersla samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í fjármálaáætlun fyrir tímabilið 2021-2025 er á að auka fjárfestingar en innviðauppbygging verður í sögulegu hámarki á tímabili fjármálaáætlunar. Útgjaldarammi samgöngu- og fjarskiptamála hækkar um 25 milljarða króna frá gildandi fjármálaáætlun eða um 11,9%

 „Landsmenn hafa ekki upplifað annað eins framkvæmdatímabil,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í tilefni af nýframkominni fjármálaáætlun. „Um leið og við vinnum gegn samdrætti í hagkerfinu þá stórbætum við umferðaröryggi. Það eru góðu fréttirnar.“ 

 

Auknar vegaframkvæmdir og stórfækkun einbreiðra brúa

Opinberar fjárfestingar munu vega á móti tímabundnum samdrætti, mynda hagvöxt og skapa atvinnu. Framkvæmdum á komandi árum er ætlað að bæta umferðaröryggi og styrkja byggð. Á meðal brýnna framkvæmda má nefna tvöföldun Reykjanesbrautar, Suðurlandsvegar og Vesturlandsvegar um Kjalarnes, Skagastrandarveg, Vestfjarðaveg um Gufudalssveit, veg um Borgarfjörð eystri og brú yfir Jökulsá á Fjöllum. Samvinnuverkefni í vegaframkvæmdum, samstarf á milli hins opinbera og atvinnulífs, snúa öðrum fremur að stórum og mikilvægum framkvæmdum sem styðja við þjóðhaglegan ábata og með áherslur á umferðaröryggi. Fyrst í röðinni verður brú yfir Hornafjarðarfljót, nýr vegur yfir Öxi og ný Ölfusárbrú. Aðrar framkvæmdir eru láglendisvegur og göng í gegnum Reynisfjall, önnur göng undir Hvalfjörð og Sundabraut.

Ein stærsta öryggisaðgerðin er fækkun einbreiðra brúa en þar er gert ráð fyrir 5,8 milljörðum króna næstu fimm árin en stefnt er að því að þeim fækki á Hringveginum um ríflega helming á tímabilinu, verði 19 árið 2025 í stað 36 nú.

Til samgöngumála í heild renna 225 milljarðar á næstu fimm árum þ.a. 59% til framkvæmda á vegakerfinu. 

Fjölgun gátta til landsins og aukið viðhald flugvalla

Auknar fjárfestingar á flugvöllum nema um 3,8 milljörðum króna á tímabili fjármálaáætlunar. Heildarframlag til flugvalla og flugleiðsögu getur numið allt að 14 milljörðum króna á næstu fimm árum. Er nú unnið að því að stækka flugstöðina á Akureyri með það að markmiði að hún sé betur í stakk búin að taka á móti auknu alþjóðlegu flugi. Þá verður flughlaðið einnig stækkað til að tryggja öryggi loftfara á flugvelli og styrkja hlutverk flugvallarins sem varaflugvallar. Er þessi aðgerð til þess fallin að fjölga gáttum til landsins. Þar að auki verður unnið að viðhaldi á flugvöllum víða um land, svo sem á Reykjavíkurflugvelli, Ísafjarðarflugvelli, Þórshafnarflugvelli, og tilteknum lendingarstöðum s.s. á Norðfirði. Munu það hafa áhrif á m.a. öryggi, greiðleika og jákvæða byggðaþróun.

Mikil umsvif í hafnarframkvæmdum og sjóvörnum

Framlag ríkissjóðs til hafnarframkvæmda og sjóvarna á tímabili fjármálaáætlunar mun nema yfir 9 milljörðum króna. Ýmis stór verkefni eru á teikniborðinu með áherslu á að mæta þörfum samtímans, s.s. nýr hafnarkantur við Sundabakka á Ísafirði, lenging Norðurgarðs á Grundarfirði, endurbygging stálþils á Djúpavogi og endurbygging Bjólfsbakka á Seyðisfirði.

IRIS, nýr fjarskiptasæstrengur 

Stjórnvöld, í samvinnu við Farice ehf., munu á tímabili fjármálaáætlunar standa að lagningu þriðja fjarskiptasæstrengsins. Nýi strengurinn mun liggja á milli Íslands og Írlands (IRIS) og er stefnt að því að taka hann í gagnið undir lok árs 2022 eða árið 2023 hið síðasta. Fjármögnun verður í formi hlutafjár.

Netöryggi stóreflt

Netöryggismál verða fyrirferðarmikil á næstu árum en nýlega tóku gildi ný lög á þessu sviði. Stuðlað verður að auknu netöryggi með tilkomu sérhæfðs búnaðar fyrir starfsemi netöryggissveitar, komið verður á skipulögðu samstarfi um málaflokkinn innanlands og utan og unnið með fræðslu, nýsköpun og rannsóknir. Í fjármálaáætlun nema bein framlög til netöryggismála ríflega 1,6 milljarði króna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum