Hoppa yfir valmynd
3. nóvember 2020 Utanríkisráðuneytið

Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra fordæmdi árásirnar í Vínarborg

Frá Vínarborg - myndWikimedia Commons/Manfred Werner
 

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, hefur fordæmt skotárásirnar sem framdar voru í Vínarborg í gærkvöld og lýst yfir samstöðu með íbúum Austurríkis. Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins sendi út boð til Íslendinga í borginni vegna árásanna. 

Mannfall varð og fjölmargir særðust þegar vopnaðir menn skutu á vegfarendur nærri samkomuhúsi gyðinga í Vín í gærkvöld. Í kjölfarið var miðborginni lokað í umfangsmiklum lögregluaðgerðum. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, lýsti því yfir á Twitter í gærkvöld að hann væri sleginn vegna árásanna og vottaði þeim sem um sárt eiga binda vegna þeirra samúð. Í yfirlýsingunni fordæmdi hann hermdarverkin og lýsti yfir samstöðu með íbúum Austurríkis.

Borgarþjónusta utanríkisráðuneytisins birti tilkynningu á Facebook þar sem Íslendingar í Vín voru hvattir til að láta sína nánustu vita af sér ef þeir væru óhultir en hafa samband við borgaraþjónustuna ef þeir þyrftu á hjálp að halda. Þá var fastafulltrúi Íslands gagnvart alþjóðastofnunum í Vín í sambandi við Íslendinga í borginni en árásirnar voru gerðar skammt frá skrifstofu fastanefndarinnar. Var rætt við Guðna Bragason, fastafulltrúa, í fjölmiðlum vegna þess. 

Vegna fregna af alvarlegri skotárás í Vín hvetur borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins Íslendinga í borginni til að...

Posted by Utanríkisráðuneytið - utanríkisþjónusta Íslands on Mánudagur, 2. nóvember 2020

Árásirnar í Vínarborg koma í kjölfarið á hryðjuverkum sem framin hafa verið í Frakklandi að undanförnu. Eftir morðið á kennaranum Samuel Paty lýsti Guðlaugur Þór yfir hryllingi á illvirkinu í tveimur færslum á Twitter og sagði árásirnar atlögu að tjáningarfrelsinu. Berjast yrði gegn hvers kyns öfgahyggju sem ógnaði lífi okkar og gildum. 

Í síðustu viku fordæmdi Guðlaugur Þór svo hryðjuverk í frönsku borginni Nice þar sem þrír voru myrtir í hnífaárás í kirkju í borginni. Árásin gæfi til kynna stigmögnun ofbeldis og árása á tjáningarfrelsið. Vottaði ráðherra þolendum og ástvinum þeirra samúð og lýsti yfir samstöðu með Frökkum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum