Hoppa yfir valmynd
4. nóvember 2020 Utanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór ávarpaði ráðherrafund Evrópuráðsins

Skjáskot úr myndbandsávarpi Guðlaugs Þórs - myndUtanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra lét í ljós áhyggjur af kynbundnu ofbeldi og takmörkunum á frelsi blaðamanna og ræddi jafnfram stöðu Mannréttindadómstóls Evrópu í ávarpi sínu á ráðherrafundi Evrópuráðsins í dag.
 
Utanríkisráðherrar aðildarríkjanna ávörpuðu fundinn hver frá sínu landi vegna ferðatakmarkana um þessar mundir. Leiðtogar Grikklands, sem nú gegna formennsku í Evrópuráðinu, stýrðu fundinum frá fundarstaðnum í Aþenu.
 
Í ávarpi sínu lagði utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra megináherslu á að mannréttindi væru virt í hvívetna í öllum 47 aðildarríkjum Evrópuráðsins á tímum heimsfaraldursins. Hann nefndi sérstaklega að kyndbundið ofbeldi hefði því miður aukist undanfarið. Þá fjallaði ráðherra um takmarkanir á frelsi fjölmiðla og blaðamanna.
 
„Við höfum séð takmarkanir á frelsi fjölmiðla og óviðunandi aðstæður blaðamanna, sem ógna kjarna frjálsrar fjölmiðlunar og lýðræðinu. Við verðum nú sem aldrei fyrr að tryggja fjölmiðlafrelsi, frjálsa opinbera umræðu og takast á við upplýsingaóreiðu með fræðslu og opnu aðgengi að áreiðanlegum upplýsingum,“ sagði Guðlaugur Þór í ávarpinu.
 
Þá ræddi utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra framlag Mannréttindadómstóls Evrópu til verndar mannréttindum í álfunni undanfarna áratugi. Fyrir vikið nyti dómstóllinn trausts og virðingar sem byggst hefði upp sökum fagmennsku og metnaðar. 
 
„Gleymum ekki að orðspor getur spillst við hvert skref sem stigið er af leið eða til baka. Ísland styður áframhaldandi starf dómstólsins,“ sagði Guðlaugur Þór.
 
Á ráðherrafundinum lögðu Grikkir fram sérstaka yfirlýsingu fundarins, Aþenuyfirlýsinguna, þar sem undirstrikað er mikilvægi þess að mannréttindi séu virt á þeim tímum sem þjóðir heims ganga nú í gegnum.

Fundurinn er að þessu sinni haldinn í Aþenu tilefni af því að 4. nóvember eru 70 ár liðin frá undirritun Mannréttindasáttmála Evrópu í Róm, þar sem Ísland var meðal þeirra þjóða sem undirrituðu sáttmálann.

Ísland tekur við formennsku í Evrópuráðinu árið 2022 og tekur í aðdraganda þess sæti í yfirstjórn Evrópuráðsins þegar á næsta ári.

Ávarp utanríkisráðherra má lesa hér.
Aþenuyfirlýsinguna má lesa hér.

 
  • Guðlaugur Þór ávarpaði ráðherrafund Evrópuráðsins - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum