Hoppa yfir valmynd
12. maí 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Úttekt séreignar og fleiri úrræði samþykkt á Alþingi

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. - myndGolli

Framhald og rýmkun viðspyrnu- og lokunarstyrkja, útgreiðsla séreignarsparnaðar, sérstakur barnabótaauki og fleiri aðgerðir til verndar og viðspyrnu vegna heimsfaraldurs kórónuveiru voru samþykktar á Alþingi í gær.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra lagði á dögunum fram frumvörp sem hafa að markmiði að styðja við einstaklinga og rekstraraðila á lokametrum baráttunnar við heimsfaraldurinn, sem Alþingi hefur nú samþykkt.

Heimilt að taka út séreignarsparnað allt þetta ár

Heimilað var að nýju að taka tímabundið út ákveðinn hluta af séreignarsparnaði, en gripið var til sambærilegrar heimildar snemma í faraldrinum sem gilti út árið 2020. Til að mæta áhrifum faraldursins, sem hafa varað lengur en gert var ráð fyrir í fyrstu, var ákveðið að endurnýja heimildina.

Hægt verður að taka út séreignarsparnað til eigin nota út árið 2021 og eru sömu viðmið um fjárhæðir og tímabil og giltu á árinu 2020. Hámarksútgreiðsla er 12 m.kr. yfir 15 mánaða tímabil og útgreiðsla hvers mánaðar nemur að hámarki 800 þúsund krónum.

Viðspyrnustyrkir framlengdir og rýmkaðir

Samþykkt var að framlengja og rýmka úrræðið um viðspyrnustyrki. Nú þegar hafa um 3.200 umsóknir borist um styrkina og ríflega 3,1 milljarður króna hefur verið greiddur út.

Í nýjum lögum um styrkina kemur fram að rekstraraðilar sem hafa vegna heimsfaraldursins orðið fyrir a.m.k. 40% tekjufalli í almanaksmánuði á tímabilinu frá 1. nóvember 2020 til og með 30. nóvember 2021, samanborið við sama almanaksmánuð árið 2019, geta fengið styrk. Lágmarks tekjufall hefur hingað til verið 60%, en lækkaður þröskuldur gildir afturvirkt til nóvember 2020.

Styrkfjárhæð getur mest numið 90% af rekstrarkostnaði umsækjanda, en verður þó aldrei hærri en sem nemur tekjufallinu á viðkomandi tímabili.Að auki eru eftirfarandi viðmið sett fram um styrkfjárhæðir:

  • 40-60% tekjufall: 300 þúsund króna hámarksstyrkur fyrir hvert stöðugildi, að hámarki 1,5 milljónir króna.
  • 60-80% tekjufall: 400 þúsund króna hámarksstyrkur fyrir hvert stöðugildi, að hámarki 2 milljónir króna.
  • 80–100% tekjufall: 500 þúsund króna hámarksstyrkur fyrir hvert stöðugildi, að hámarki 2,5 milljónir króna.

Heimilt er að miða við fjölda stöðugilda við fjölda þeirra í sama mánuði 2019.

30.000 krónur í sérstakan barnabótaauka

Við álagningu opinberra gjalda um næstu mánaðamót verður greiddur út sérstakur barnabótaauki að fjárhæð 30.000 kr. með hverju barni til þeirra framfærenda sem fá ákvarðaðar tekjutengdar barnabætur, en barnabótaaukinn verður greiddur vegna um 45.000 barna. Barnabótaaukinn telst ekki til skattskyldra tekna og leiðir ekki til skerðingar annarra greiðslna. Markmið aðgerðarinnar er að koma til móts við tekjulægri barnafjölskyldur vegna áhrifa faraldursins.

Greiðsludreifing staðgreiðslu og tryggingagjalds

Þá var samþykkt að lögaðilar og einstaklingar í atvinnurekstri sem fengið hafa frest til skila á afdreginni staðgreiðslu af launum og greiðslu staðgreiðslu tryggingagjalds vegna ársins 2020 geti sótt um að dreifa þeim greiðslum í 48 jafnháar mánaðarlegar greiðslur, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Er með þessu komið frekar til móts við lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri, sem lent hafa í greiðsluvanda.

Tekið við umsóknum um lokunarstyrki út september

Jafnframt var framlengdur umsóknarfrestur um lokunarstyrki. Almennur umsóknarfrestur um lokunarstyrki sem veittir voru vegna fyrri hluta ársins 2020 var til og með 1. september 2020 og um viðbótarlokunarstyrki til og með 1. október 2020. Með nýjum lögum hefur Skattinum verið heimilað að taka til afgreiðslu umsóknir sem berast eftir þann tíma allt til 30. september 2021.

Grunnstoðir varðar

Öll úrræðin, sem og önnur sem enn eru í meðförum Alþingis, miða að því að verja áfram grunnstoðir samfélagsins, vernda afkomu fólks og fyrirtækja, og tryggja öfluga viðspyrnu fyrir íslenskt efnahagslíf. Síðustu mánuði hafa vel yfr 80 milljarðar verið greiddir í sértækan stuðning í stærstu úrræðum ríkisstjórnarinnar vegna faraldursins að frátöldum heimildum til útgreiðslu séreignarsparnaðar og aukinnar endurgreiðslu virðisaukaskatts (VSK). Á fimmta þúsund rekstraraðilar og um fjörutíu þúsund einstaklingar hafa nýtt stuðninginn.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum