Hoppa yfir valmynd
24. maí 2021 Utanríkisráðuneytið

Hönnunarmars á Norðurlöndunum

Hvernig mótast hönnuðir af því umhverfi sem þeir koma úr og hvernig geta hönnuðir með bakgrunn sem er ólíkur bakgrunni meginþorra samborgara sinna mótað umhverfið til að knýja fram breytt viðhorf?

Þessar spurningar bar á góma í hlaðvarpinu DesignMarch in Stockholm sem er hluti af hlaðvarpsröð framleiddri í samstarfi Hönnunarmars og sendiráða Íslands í Helsinki, Kaupmannahöfn, Osló og Stokkhólmi. Hönnunarmars fór fram í 13. sinn dagana 19. til 23. maí. Færri erlenda gesti bar að garði en fyrri ár vegna aðstæðna í samfélaginu og varð það kveikjan að verkefninu sem miðar að því að ná út með boðskapinn um íslenska hönnun til áhugafólks um hönnun á öllum Norðurlöndunum.

Þær Vaka Gunnarsdóttir, arkitekt og Asli Abdulrahman, innanhúshönnuður og húsgagnahönnuður, mættust í samtali í sendiráði Íslands í Stokkhólmi sem leitt var af Gustaf Kjellin, kúrator. Bakgrunnur Vöku og Asli er ólíkur en hefur haft mikil áhrif á verk þeirra. Vaka á ættir að rekja til Austurlands og framkvæmdirnar í tengslum við Káranhjúkavirkjun fönguðu áhuga hennar og leiddu til þess að hún hóf að skrásetja sögur og frásagnir fólks sem hefur lifað lífi sínu á svæði sem nú er horfið undir vatn. Úr varð óhefðbundið lokaverkefni í arkitektúr við Konunglega tækniháskólann í Stokkhólmi sem skorar á hefðbundar hugmyndir um það hvað arkitektúr er.

Asli er múslimi, uppalin í úthverfi Stokkhólms og að vissu leyti á jaðri þess sem enn er mynd margra af sænsku samfélagi. Lokaverkefni hennar við listaháskólann Konstfack kallast Lífið fyrir utan hvíta skapalónið og fjallar um þá tilfinningu sem fylgir því að alast upp í samfélagi sem virðist sérhannað fyrir fólk með ákveðinn þröngt skilgreindan bakgrunn. Líkt og Vaka notast hún við frásagnir í verkum sínum en leitast einnig við að breyta rýmum til þess að rýmin sjálf geti knúið fram samfélagslegar breytingar.

Samtalið má nálgast á heimasíðu Hönnunarmars en þar má einnig nálgast sambærilega hlaðvarpsþætti tekna upp í sendiráðum Íslands í Helsinki, Kaupmannahöfn og Osló. Góða hlustun!

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira