Hoppa yfir valmynd
13. ágúst 2021 Utanríkisráðuneytið

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla erlendis hefst í dag

Alþingishúsið - myndHari

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla erlendis vegna alþingiskosninga 25. september 2021 hefst í dag, 13. ágúst, og fer fram í öllum sendiráðum Íslands erlendis og aðalræðisskrifstofum Íslands í New York, Winnipeg, Nuuk og Þórshöfn í Færeyjum. Einnig er unnt að kjósa utan kjörfundar eftir samkomulagi hjá kjörræðismönnum Íslands erlendis.

Í ljósi þess ástands sem nú ríkir í heiminum vegna COVID-19 farsóttarinnar geta óhjákvæmilega komið upp tilvik þar sem aðgengi kjósenda að kjörstöðum erlendis er takmarkað af sóttvarnaástæðum. Kjósendum er bent á að hafa samband við sendiskrifstofur varðandi fyrirkomulag á hverjum stað. 

Gert er ráð fyrir að kjósendur kynni sér sjálfir hverjir eru í framboði og hvaða listabókstafir eru notaðir. Hagnýtar upplýsingar um kosningarnar verður að finna á vefsetrinu: www.kosning.is.

Athygli kjósenda er ennfremur vakin á því að þeim ber sjálfum að póstleggja atkvæði sín eða koma þeim á annan hátt í tæka tíð til viðkomandi kjörstjórnar á Íslandi. Vegna heimsfaraldursins er brýnt að gera slíkar ráðstafanir tímanlega.

Upplýsingar um sendiskrifstofur Íslands erlendis
Upplýsingar um kjörræðismenn eftir löndum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum