Hoppa yfir valmynd
16. september 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Meir en þreföldun í endurheimt birkiskóga 2030

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. - mynd

Íslensk stjórnvöld hafa tekið svonefndri Bonn-áskorun og staðfesta í dag markmið Íslands um að árið 2030 vaxi birkiskógar á 5% landsins, í stað 1,5% nú.

Undanfarin ár hafa íslensk stjórnvöld aukið verulega aðgerðir á sviði landgræðslu, skógræktar og endurheimtar votlendis. Sérstök áhersla hefur verið á endurheimt birkiskóga og er átakið liður í aðgerðum sem ætlað er að endurheimta gróður- og jarðvegsauðlindina, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka kolefnisbindingu. Endurheimt skóga eykur jafnframt viðnámsþol gegn náttúruvá og bætir vatnsmiðlun, t.d. með því að draga úr flóðahættu, um leið og hún eykur framleiðni af landi. Með aðgerðunum eru skýr samlegðaráhrif og hægt að vinna að mörgum markmiðum í einu og sama verkefninu: stemma stigu við loftslagsbreytingum, auka verndun líffræðilegrar fjölbreytni og sporna gegn landhnignun.

Alþjóðlegt átak um endurheimt skóga

Bonn-áskorunin er alþjóðlegt átak um endurheimt skóga og er skipulögð af alþjóða náttúruverndarsamtökunum IUCN í samstarfi við fleiri aðila. Átakið felur í sér að skipuleggja endurheimt skóga á landslagsheildum, í víðtæku samráði og samstarfi við hagaðila á hverju svæði. Áhersla er á að endurheimta skóga á illa grónu landi, t.d. svæðum þar sem gróður- og jarðvegseyðing hefur átt sér stað. Innan hvers svæðis getur þó áfram verið fjölbreytt landnotkun, landbúnaður, nytjaskógrækt, byggð o.s.frv. Verkefnið er liður í áratugi Sameinuðu þjóðanna um endurheimt vistkerfa.

Útilokar ekki annars konar landnýtingu

Til að ná settu markmiði þarf að skilgreina ákveðið flatarmál lands þar sem stefnt er að endurheimt birkiskóga samhliða fjölbreyttri landnýtingu. Fyrirmynd slíkra verkefna eru t.a.m. Hekluskógar þar sem auk endurheimtar birkiskóga fer fram fjölbreytt landnotkun og starfsemi. Lögð er rík áhersla á að þátttaka í Bonn-áskoruninni stuðli að atvinnu í heimabyggð og veitir verkefnið landeigendum innan skilgreindra Bonn-svæða aukin tækifæri til þátttöku í endurheimt skóga. Nú þegar eru verkefni á svæðum í umsjá ríkisstofnana fjármögnuð af ríkinu en auknar fjárveitingar eru til loftslagsmála á næstu árum sem meðal annars verður varið til þessa verkefnis.

Byggir á víðtæku samráði

Verkefnið byggir á víðtæku samstarfi sveitarfélaga, bænda og annarra landeigenda, fyrirtækja, stofnana, frjálsra félagasamtaka og almennings. Nú liggur fyrir áhugi um 20 sveitarfélaga, félagasamtaka og fleiri aðila á að taka þátt í átakinu.

Áhugasamir aðilar sem vilja taka þátt geta haft samband við Landgræðsluna og Skógræktina þar sem má fá nánari upplýsingar.

  • Hekluskógar - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum