Hoppa yfir valmynd
1. mars 2022 Innviðaráðuneytið

Lagafrumvarp um leigubifreiðaakstur lagt fram að nýju

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, mælti á Alþingi í dag fyrir frumvarpi til nýrra heildarlaga um leigubifreiðaakstur. Markmiðið er að færa lög og reglur um leigubifreiðar til nútímalegra horfs og tryggja gott aðgengi að hagkvæmri, skilvirkri og öruggri leigubifreiðaþjónustu. Þá er nýjum lögum ætlað að tryggja að íslenska ríkið standi við skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum um evrópska efnahagssvæðið. 

Frumvarpið, sem nú er lagt fram í þriðja sinn, byggir á sama grunni og áður og með minniháttar breytingum á einstökum ákvæðum.

„Verði frumvarpið að lögum munu þau auka atvinnutækifæri fjölbreyttra hópa. Afnám reglna um lágmarksnýtingu leyfis er til þess fallið að veita kynjum jafnara aðgengi í stéttina. Karlar eru mun fjölmennari en konur í stéttinni í dag en almennt eru konur taldar líklegri til að starfa í hlutastörfum en karlar,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra á Alþingi í dag. 

Það er ekki sérstaklega fjallað um farveitur í frumvarpinu, en vikið að þeim í greinargerð. Frumvarpið gerir engan greinarmun á farveitum og hefðbundnum leigubifreiðastöðvum. Því myndu farveitur þurfa að uppfylla sömu skilyrði og hefðbundnar leigubifreiðastöðvar til að fá útgefið leyfi. Þannig er gætt að sjónarmiðum um jöfn samkeppnisskilyrði og gert er ráð fyrir því að kjósi bílstjórar að starfa fyrir farveitur, sem nýta snjalltækni við milligöngu um þjónustu, þurfi þeir að uppfylla öll sömu skilyrði og þeir sem hyggjast starfa sem leigubifreiðastjórar í hefðbundnari skilningi.

„Frumvarpið veitir einstaklingum tækifæri að fá leyfi til aka eða reka leigubifreið og fyrirtækjum tækifæri til að reka leigubifreiðastöð að uppfylltum ströngum skilyrðum sem bílstjórum og leigubifreiðastöðvum er gert að fullnægja,“ segir ráðherra.

Helstu breytingar

  • Helstu breytingar með heildarendurskoðun laga um leigubifreiðaþjónustu eru:
  • Fjöldatakmarkanir verða afnumdar en skýr skilyrði sett um leyfisveitingar. Fjöldatakmarkanir eru í dag á Akureyri, Árborg, höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum, á öðrum stöðum á landinu eru engar fjöldatakmarkanir. Leigubifreiðastjórum verður heimilt að hafa afgreiðslu á leigubifreiðastöð. Þannig getur einn eða fleiri verið á hverri leigubifreiðastöð. 
  • Skýrari skilyrði eru sett fyrir rekstraraðila leigubifreiða og að starfa sem bílstjóri, og í sumum tilvikum strangari en í gildandi lögum. 
  • Samgöngustofa fær auknar heimildir til afturköllunar leyfa ef aðilar uppfylla ekki lengur skilyrði fyrir útgáfu. 
  • Gerðar eru breytingar á reglum um gjaldmæla og verðskrár. 
  • Lagt til að afnema skilyrði um lágmarksnýtingu atvinnuleyfis, sem í reynd hefur falið í sér skyldu til að hafa akstur að aðalatvinnu.

Nánar um skilyrði sem uppfylla þarf

Frumvarpið hefur að geyma ítarleg skilyrði sem þarf að uppfylla til að fá útgefið rekstrarleyfi leigubifreiðar , s.s. um lögheimili, starfshæfni, aldursmörk, gott orðspor, aukin ökuréttindi, skráningu og tryggingar og loks að hafa lokið námskeiðum um leigubifreiðaakstur, rekstur, bókhald og þess háttar. Áfram verða því í gildi ströng skilyrði og í sumum tilvikum eru gerðar strangari kröfur en samkvæmt gildandi lögum. 

Til að öðlast starfsleyfi leigubifreiðastöðvar þarf að hafa starfsstöð á Íslandi. Öll grunnviðskiptaskjöl skal geyma í starfsstöð hér á landi og þaðan skal starfseminni stjórnað. Leigubifreiðastöð þarf einnig að uppfylla skilyrði reglugerðar um fullnægjandi fjárhagsstöðu.

Nánar um stöðvarskyldu

Í dag eru í gildi takmarkanir á fjölda útgefinna leyfa til aksturs leigubifreiða á þremur stöðum á landinu. Áfram verður heimilt að hafa afgreiðslu á leigubifreiðastöð, ekki skylt. Frumvarpið gerir þannig ráð fyrir því að afnema stöðvarskyldu sem er í gildi á takmörkunarsvæðunum. Helstu rökin eru að eftirspurn hefur vaxið eftir fjölbreyttari þjónustu í stafrænu formi. Frumvarpið leggur ríkar skyldur á rekstrarleyfishafa leigubifreiða en heimilar þeim einnig að framselja hluta af þeim skyldum til leigubifreiðastöðva, kjósi þeir að hafa afgreiðslu á slíkri stöð. 

Með frumvarpinu er lagt til að til verði tvenns konar leyfi til að stunda leigubifreiðaakstur, rekstrarleyfi og atvinnuleyfi. Annars vegar rekstrarleyfi sem veitir leyfishafa rétt til að aka og reka leigubifreið. Rekstrarleyfishafi skal vera skráður eigandi eða umráðamaður bifreiðarinnar. Hins vegar atvinnuleyfi sem veitir leyfishafa rétt til að aka leigubifreið sem er í eigu rekstrarleyfishafa. Kveðið er á um að rekstrarleyfishafi þurfi að hafa lögheimili á evrópska efnahagssvæðinu, virka starfsstöð á Íslandi og hafi fullnægjandi fjárhagsstöðu.

Forsaga og samráð frá upphafi

Heildarendurskoðun laga um leigubifreiðar hófst með skipun starfshóps um endurskoðun á þeim reglum sem gilda um leigubifreiðaakstur á Íslandi í október 2017. Starfshópurinn skilaði tillögum í skýrslu í mars 2018. Þar kom fram að breytingar á gildandi lögum væru óhjákvæmilegar þar sem þau samrýmdust líklega ekki ákvæðum EES-samningsins. 

Frumvarp þetta byggir að meginstefnu til á tillögum sem starfshópurinn lagði til í skýrslu sinni auk þess sem umsagnir í samráðsferli hafa verið hafðar til hliðsjónar, en það var tvívegis lagt fram í samráðsgátt stjórnvalda.

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hóf frumkvæðisathugun á leigubílamarkaði árið 2017 en þá hafði stofnunin nýlega komist að þeirri niðurstöðu í rökstuddu áliti að leigubifreiðalöggjöf í Noregi uppfyllti ekki ákvæði EES-samningsins. Í nóvember 2021 birti ESA rökstutt álit þess að efnis að íslenska ríkið brjóti á skyldum sínum gagnvart EES-samningnum, einkum er varðar rétt borgara til að hefja og stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum