Hoppa yfir valmynd
16. mars 2022 Utanríkisráðuneytið

Rússlandi vísað úr Evrópuráðinu

Ráðherranefnd Evrópuráðsins ákvað samhljóða á sérstökum aukafundi í dag að vísa Rússlandi úr Evrópuráðinu. Ákvörðunin, sem tekur gildi í dag, er tekin á grundvelli þess að Rússland hafi með árás sinni á Úkraínu brotið gróflega gegn stofnsáttmála og grunngildum stofnunarinnar.   

„Með sögulegri samstöðu 46 aðildarríkja Evrópuráðsins um að vísa Rússlandi úr ráðinu eru gefin skýr skilaboð um að gróf brot gegn grunngildum stofnunarinnar verði ekki látin óátalin,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. „Hins vegar eru það mikil vonbrigði að til þessa hafi þurft að koma. Evrópuráðið hverfist um mannréttindi, lýðræði og réttarríkið, gildi sem ég vona að eigi afturkvæmt í rússneskt samfélag.“

25. febrúar síðastliðinn svipti ráðherraráð Evrópuráðsins Rússlandi þátttökurétti sínum í Evrópuráðinu. Þá var Rússland ítrekað hvatt til að stöðva stríðsrekstur sinn í Úkraínu, virða grunngildi Evrópuráðsins og snúa til friðar. Í gær samþykkti Evrópuráðsþingið að leggja til að ráðherranefnd Evrópuráðsins tæki næstu skref til að víkja Rússlandi úr ráðinu svo fljótt sem kostur væri og var í kjölfarið boðað til sérstaks fundar ráðherranefndarinnar. Sá fundur fór fram í morgun og var brottvikning Rússlands var samþykkt samhljóða. 

Í dag verða aðildarríki Evrópuráðsins 46 í stað 47 sem áður var. Ákvörðun ráðherranefndarinnar og ferlið um brottvísun Rússlands á vettvangi Evrópuráðsins er fordæmalaus í sögu stofnunarinnar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum