Hoppa yfir valmynd
21. mars 2022 Innviðaráðuneytið

Norrænir samgönguráðherrar fordæma innrás Rússlands

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, við upphaf fundar norrænna samgönguráðherra. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, tók í morgun þátt í fjarfundi norrænna samgönguráðherra um ýmis málefni. Ráðherrarnir fordæmdu þar einróma innrás Rússlands í Úkraínu og voru sammála um mikilvægi þess að samræma ákvarðanir og viðbrögð samstarfsríkja. Þar væri samstaða norrænna ríkja ekki síst mikilvæg.

Á fundinum var rætt um fjölmörg mál tengd flugsamgöngum, þ.á m. áhrif COVID-19 faraldursins á flug á Norðurlöndum. Ráðherrarnir voru sammála um að horfa þurfi fram á við og undirbúa orkuskipti í flugi. Þá var einnig rætt um mikilvægi samvinnu á sviði flugumferðarstjórnar á norðurslóðum.

Ráðherrarnir fjölluðu um ýmsar félagslegar hliðar samgangna, áskoranir varðandi félagsleg undirboð og mikilvægi þess að jafna kynjahlutföll í störfum á sviði samgangna. 

Grænar samgöngur voru einnig til umfjöllunar. Sammæltust ráðherrarnir um að rétt væri að stefna að sameiginlegu áliti Norðurlandaþjóða um tillögu framkvæmdastjórnar ESB um innviði fyrir nýja orkugjafa (Alternative Fuels Infrastructure). Þar verði einkum horft til þess að tryggja hagsmuni neytenda með góðu aðgengi, sanngjörnu verðlagi og skilmálum við nýtingu slíkra innviða, þ.m.t. hleðslustöðva.

Norrænir samgönguráðherrar hafa átt reglulega fjarfundi á tímum heimsfaraldursins og var fundurinn liður í góðu samstarfi þjóðanna á þessu sviði.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum