Hoppa yfir valmynd
2. apríl 2022 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra ávarpaði ársfund Íslandsstofu

Hildur Árnadóttir, stjórnarformaður Íslandsstofu, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Pétur Þ. Óskarsson, frkvstj. Íslandsstofu - myndÍslandsstofa

Nýsköpun og tækniþróun, hlutverk Íslandsstofu til stuðnings íslensku atvinnu- og menningarlífi og mikilvægi sköpunarkraftsins voru til umfjöllunar í ávarpi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra á ársfundi Íslandsstofu sem haldinn var í Grósku í gær. Á ársfundinum var farið yfir starfsemi stofnunarinnar á liðnu ári og markaðsáherslur framundan.  

Ráðherra sagði allar framfarir mannkyns fólgnar í sköpunarkraftinum. „Þetta afl ásamt þörfinni til að skapa eitthvað nýtt eru drifkraftur allra framfara. Það er sköpunarkrafturinn sem keyrir áfram þekkingarleit og uppgötvanir í vísindalegu umhverfi. Sama afl knýr nýsköpun og frumkvöðlastarf þar sem þekking er hagnýtt og gerð að markaðshæfri vöru sem bætir lífsgæði í samfélaginu. Sköpunarkrafturinn er að sjálfsögðu uppspretta listsköpunar og menningar líka—þar sem við upplifum dýpstu og fegurstu birtingarmyndir þess sem mannsandinn leysir úr læðingi,“ sagði Þórdís Kolbrún.  

Andstaðan við sköpunarkraftinn væri hins vegar eyðileggingarmáttur illskunnar og áþreifanleg birtingarmynd hans um þessar mundir væri innrás Rússlands í Úkraínu. „Og meðan Pútín beitir eyðileggingarafli sínu reynir enn frekar en áður á getu okkar til þess að bregðast við með framsýni, útsjónarsemi og dugnaði.“ 

Utanríkisráðherra sagði skammtímaafleiðingu stríðsins fyrst um sinn birtast í röskun aðfangakeðja flutninga og framleiðslu. Þá hafi sniðganga á rússneskri olíu knúið enn frekar á um að orkuskiptin í Evrópu gangi hraðar fyrir sig, sem setji Ísland í sérstaka stöðu. Lengri tíma afleiðingar innrásarinnar í Úkraínu fyrir lykilatvinnugreinar Íslands eigi hins vegar eftir að koma fram. „Nú er fæðuöryggi mörgum þjóðum ofarlega í huga vegna uppskerubrests, viðskiptaþvingana og verðhækkana á fóðri. Þýðing öflugs íslensk sjávarútvegs verður því vart ofmetin á þessum tímum,“ sagði ráðherra.  

Að sögn Þórdísar Kolbrúnar gegnir Íslandsstofa ákaflega mikilvægu hlutverki við að styðja við sköpunarkraftinn í íslensku atvinnu- og menningarlífi. Listir og skapandi greinar eigi stóran þátt í að skapa ímynd og viðhorf til lands og þjóðar. „Nýtt samkomulag stjórnvalda og Íslandsstofu um markaðsverkefnið Skapandi Ísland, markar þáttaskil í kynningu á íslenskri menningu erlendis. Verkefninu verða lagðar til 90 milljón krónur árlega til ársins 2025 og er því hægt að ráðast í umfangsmeiri kynningar en áður og gera áætlanir til lengri tíma.“ 

Þá sagði Þórdís Kolbrún að þróun og mótun íslensks atvinnulífs til framtíðar muni byggjast á nýsköpun. Í vinnu við nýsköpunarstefnu Íslands sem kynnt var á síðasta kjörtímabili hafi verið lögð sérstök áhersla á mikilvægi þess að nýsköpunarhugsun á Íslandi þurfi ætíð að vera alþjóðleg í eðli sínu. „Þess vegna skiptir miklu máli að íslenska utanríkisþjónustan og Íslandsstofa stefni ætíð að því að stækka leikvöllinn fyrir íslensk fyrirtæki og íslenska menningu,“ sagði hún.  

Ávarp utanríkisráðherra á ársfundi Íslandsstofu


  • Þórdís Kolbrún á fundinum í gær - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum