Hoppa yfir valmynd
20. apríl 2022 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Frá samninganefnd ríkisins - Í tilefni af umræðu um kjaramál flugmanna hjá Landhelgisgæslu Íslands

Kjarasamningsviðræður samningarnefndar ríkisins (SNR) við Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) vegna flugmanna hjá Landhelgisgæslu Íslands (LHG) hafa staðið yfir um alllangt skeið, en gildandi kjarasamningur rann út í árslok 2019.

Í samningsviðræðum ríkisins og FÍA hefur krafa íslenska ríkisins verið að afnema beintengingu kjarasamnings flugmanna hjá LHG við kjarasamning FÍA við Icelandair. Forsendur þessarar afstöðu SNR eru eftirfarandi:

  • Tenging við kjarasamninga á almennum markaði er ólögmæt

    Beintenging við kjarasamninga á hinum almenna markaði samræmist ekki lögum og fyrir liggur úrskurður gerðardóms í máli ríkisins og Flugvirkjafélags Íslands, sem er afdráttarlaus hvað þetta varðar. Í kjarasamningum á almenna vinnumarkaðinum eru ákvæði sem samrýmast ekki þeim lögum og reglum sem gilda á opinberum vinnumarkaði, t.d. ákvæði um starfsaldurslista.

  • Tengingin felur í sér mikið óhagræði

    Mikið óhagræði hefur falist í því fyrir Landhelgisgæslu Íslands að hafa ákvæði í samningi sem ekkert eiga skylt við opinberan rekstur. Landhelgisgæslan er öryggis- og löggæslustofnun sem lýtur öðrum lögmálum en ferðaþjónustufyrirtæki í samkeppni á einkamarkaði – slík starfsemi lýtur eðli máls samkvæmt allt öðrum forsendum og rekstrarskilyrðum. Að auki hefur beintenging við kjarasamning á almennum vinnumarkaði í för með sér að í raun er samningsumboðið hjá Samtökum atvinnulífsins vegna kjarasamninga FÍA við Icelandair.

  • Einsdæmi á opinberum vinnumarkaði

    Flugmenn hjá LHG eru einu starfsmenn ríkisins sem eru ennþá með tengingu við kjarasamning á almennum vinnumarkaði. Samninganefndin hefur ítrekað óskað eftir samtali við FÍA um þau starfskjör sem er að finna í kjarasamningi félagsins við Icelandair og hægt væri að útfæra í nýjum samningi við ríkið en því samtali hefur verið hafnað.

  • Flugöryggi í fyrirrúmi

    Samninganefnd ríkisins telur fráleit þau sjónarmið FÍA að kröfur ríkisins í yfirstandandi viðræðum ógni flugöryggi í störfum Landhelgisgæslunnar enda er flugöryggi tryggt með lögum. Má þar vísa til laga um loftferðir nr. 60/1998, stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins (starfsmannalög). Sú túlkun að flugöryggi verði tryggt með ákvæðum um starfsaldurslista í kjarasamningum stenst enga skoðun. Þá liggur fyrir úrskurður gerðardóms að svokallaðir starfsaldurslistar séu í andstöðu við starfsmannalög.

Samningstilboð samninganefndar ríkisins

Í samráði við Landhelgisgæslu Íslands og dómsmálaráðuneytið hefur SNR lagt áherslu á færa kjarasamningsumhverfi flugmanna hjá Landhelgisgæslu Íslands til samræmis við það sem almennt er hjá ríkinu og gildir um aðra starfsmenn Landhelgisgæslunnar.

Í yfirstandandi kjarasamningsviðræðum hefur samninganefnd ríkisins lagt áherslu á að flugmenn hjá Landhelgisgæslu Íslands haldi núverandi kjörum og fái sambærilegar launahækkanir og aðrir ríkisstarfsmenn við útfærslu í heildstæðum kjarasamningi milli aðila.

Samninganefnd ríkisins mun áfram vinna náið með Landhelgisgæslunni og dómsmálaráðuneytinu í tengslum við þessar viðræður og hefur eindreginn vilja til að ná sanngjörnum samningi sem er samræmi við lög og reglur sem um þessa starfsemi gilda.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum