Hoppa yfir valmynd
25. maí 2022 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Efling Samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs

Ásmundur Einar Daðason, Sigurbjörg Sigurpálsdóttir Samskiptaráðgjafi og Þóra Sigfríður Einarsdóttir frá Domus Mentis - mynd

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hefur ákveðið að styrkja Samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs um 8 m.kr. á árinu til að bregðast við aukinni eftirspurn eftir þjónustu. Reynslan sýnir að þörf er á þjónustunni og að bæði iðkendur og íþróttafélög nýta sér þennan vettvang í auknum mæli við úrlausn mála sem tengjast áreitni, ofbeldi, einelti og samskiptavanda í íþrótta- og æskulýðsstarfi.

Samskiptaráðgjafi afhenti mennta- og barnamálaráðherra í gær ársskýrslu yfir starfsemina á síðasta ári. Tilkynningum til Samskiptaráðgjafa hefur fjölgað úr 24 árið 2020 í 79 árið 2021. Fimmtíu og ein tilkynning hefur borist það sem af er ári 2022. Flestar tilkynningar varða kynbundna eða kynferðislega áreitni eða ofbeldi. Næstflestar tilkynningar eru vegna eineltis.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra:

„Samskiptaráðgjafi er mikilvægur vettvangur til að stuðla að vellíðan og öryggi iðkenda í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Viðbrögðin hafa verið vonum framar og þau sýna að þörf sé á úrræðinu. Styðja þarf við starfsemina nú til að gera henni kleift að mæta aukinni eftirspurn.“

Tilkynningarnar eru ekki eingöngu að berast frá iðkendum heldur einnig frá íþróttafélögum sem sýnir vilja þeirra til að leysa á faglegan hátt úr deilumálum.

Samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs hóf störf í ársbyrjun 2020 að frumkvæði þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur. Markmiðið með starfsemi Samskiptaráðgjafa er að stuðla að því að íþrótta- og æskulýðsstarf fari fram í öruggu umhverfi og að börn, unglingar og fullorðnir, óháð kynferði eða stöðu að öðru leyti, geti stundað íþróttir eða æskulýðsstarf og leitað sér aðstoðar eða leitað réttar síns vegna misgerða sem eiga sér stað án þess að þurfa að óttast afleiðingarnar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum