Hoppa yfir valmynd
27. september 2022 Innviðaráðuneytið

Umferðaröryggisáætlun í fyrsta sinn kynnt í samráðsgátt

Drög að nýrri stefnu um umferðaröryggi, umferðaröryggisáætlun 2023-2037, hefur verið birt í samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar. Þar gefst öllum tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar en frestur til þess er til og með 14. október nk. Umferðaröryggisáætlun hefur verið gefin út með reglubundnum hætti síðustu ár en í fyrsta sinn eru drög að nýrri áætlun nú kynnt í samráðsgátt.

Í umferðaröryggisáætluninni er mörkuð stefna um umferðaröryggi á Íslandi til 15 ára. Markmið og áherslur miða að því að ná árangri og auka umferðaröryggi fyrir alla vegfarendur, óháð ferðamáta. 

Stefnan er byggð á þriggja þátta nálgun sem miða á að auknu umferðaröryggi og fækkun alvarlegra slysa: öruggari vegfarendur, öruggari vegir og öruggari ökutæki. Sett eru frammistöðumarkmið sem og markmið um öryggi umferðarmannvirkja og ökutækja sem um þau fara.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, kynnti drög að umferðaröryggisáætlun á Umferðarþingi 2022 sl. föstudag. „Ég vona að ný stefna og markmið um umferðaröryggi megi verða ljós sem lýsir veginn  til aukins öryggis í umferðinni fyrir alla vegfarendur, gamla sem unga, hjólandi sem gangandi eða akandi í bíl.“

Árlegur samfélagslegur kostnaður af umferðarslysum er talinn nema um 40 milljörðum króna og er því til mikils að vinna að auka umferðaröryggi með markvissum aðgerðum.

Vinna við stefnu um umferðaröryggi byggir á samstarfi innviðaráðuneytisins, Samgöngustofu, Vegagerðarinnar og lögreglu. Framkvæmd umferðaröryggisáætlunar er á forræði ráðuneytisins en ábyrgð verkefna er hjá Vegagerðinni, Samgöngustofu og ríkislögreglustjóra auk ráðuneytisins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum