Hoppa yfir valmynd
3. október 2022 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ísland hækkar mest allra landa

Ísland hækkar enn í alþjóðlegum samanburði þegar kemur að stafrænni opinberri þjónustu og innviðum. Í nýrri úttekt Sameinuðu þjóðanna sem gerð er annað hvert ár er Ísland nú í 5. sæti af 193 löndum, en var í 12. sæti árið 2020. Af þeim löndum sem eru í tíu efstu sætunum í úttektinni hækkar Ísland mest á milli kannanna.

Í úttekt SÞ er er skoðað hversu vel ríkin standa að stafrænni þjónustu (Online Service Index), hugviti (Human Capital Index) og tæknilegum innviðum (Telecommunication Infrastructure Index). Hugvit og tæknilegir innviðir eru þeir þættir sem skila Íslandi 5. sætinu. Ísland mælist einnig framarlega í stafrænni opinberri þjónustu og má búast við að sá flokkur hækki áfram. Mikil áhersla er á stafvæðingu þjónustunnar þessi misserin sem felur í sér að hún verði að fullu aðgengileg á netinu í formi umsókna, greiðslu og kvittunar fyrir þjónustu.

Í ágúst síðastliðnum var Ísland í 4.sæti meðal Evrópuþjóða í stafrænni þjónustu og hækkaði um þrjú sæti milli ára. Þar var á ferðinni árlegri könnun á vegum Evrópusambandsins (eGovernment Benchmark).

Ríkisstjórnin hefur sett sér það markmið að Ísland verði leiðandi í opinberri, stafrænni þjónustu og sýna kannanir að vinnunni miðar vel áfram. Stafræn þjónusta er þegar farin að einfalda líf fólks, spara tíma á sama tíma og þjónustan batnar.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra:


„Það er frábært að sjá mikla vinnu síðustu ára skila árangri. Við erum nú komin í hóp fimm öflugustu ríkja heims á þessu sviði, hvort sem horft er til úttektar SÞ eða ESB. Markmiðið er að ná enn lengra og leiða keppnina á heimsvísu. Við höfum alla burði til þess ef við höldum áfram uppteknum hætti.“

Andri Heiðar Kristinsson framkvæmdastjóri Stafræns Íslands:

„Þessi úttekt er staðfesting á því að stafræn opinber þjónusta á Íslandi er komin í allra fremstu röð í heiminum. Það er okkur teyminu hvatning að sjá vinnu okkar skila árangri og eflir okkur í áframhaldandi þróun.“


Nánar á eGovernment Development Index


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum