Hoppa yfir valmynd
13. október 2022 Innviðaráðuneytið

Húsaleigulög: Mælt fyrir skráningu leigusamninga og bættum brunavörnum í leiguhúsnæði

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, mælti á Alþingi í dag fyrir frumvarpi um breytingu á húsaleigulögum til að bæta skráningu upplýsinga um leigumarkaðinn og brunavarnir í leiguhúsnæði. Frumvarpið er nú endurflutt nær óbreytt frá síðasta löggjafarþingi.

Í frumvarpinu er lagt til að komið verði á skráningarskyldu leigusamninga í opinberan gagnagrunn á vegum HMS. Leigusölum verður þannig gert skylt að skrá leigusamninga innan 30 daga frá gerð þeirra. Með þessu munu fást betri upplýsingar um leigumarkaðinn hér á landi, ekki síst um markaðsleigu og þróun leiguverðs, lengd leigusamninga og tegundir, þ.e. hvort samningar séu tímabundnir eða ótímabundnir. Tillögurnar taka mið af tillögu 13 í skýrslu átakshóps stjórnvalda um húsnæðismál frá árinu 2019.

Jafnframt er lögð til sú breyting á húsaleigulögum að skráning á hækkun leigufjárhæðar í gagnagrunninn verði forsenda þess að hækkunin taki gildi gagnvart leigjanda. 

„Skráningarskylda mun ekki síst nýtast almenningi með því að gera leigumarkaðinn gagnsærri en nú er og við ákvörðun leiguverðs enda er markaðsleiga meginviðmið sanngjarns og eðlilegs leiguverðs samkvæmt húsaleigulögum. Lengi hefur verið bent á að leigjendur búi við skert húsnæðisöryggi og séu sá hópur sem standi höllustum fæti á húsnæðismarkaði. Helstu ástæður þess að leigjendur telja sig ekki búa við húsnæðisöryggi eru tímabundnir leigusamningar, of hátt leiguverð og að lítið framboð sé af íbúðarhúsnæði. Því er nauðsynlegt að stjórnvöld geti nálgast áreiðanlegar upplýsingar, byggðar á raungögnum, um þróun leiguverðs, lengd og tegundir leigusamninga, til að unnt sé að stíga markviss skref til að bæta húsnæðisöryggi og réttarstöðu þessa hóps á komandi misserum. Í því sambandi mun aukið framboð á íbúðarhúsnæði á næstu tíu árum, á grundvelli rammasamnings ríkis og sveitarfélaga um húsnæðisuppbyggingu, vera lykilþáttur í því að auka húsnæðisöryggi leigjenda enda rík tengsl á milli skorts á leiguíbúðum og húsnæðisöryggis leigjenda.,“ sagði Sigurður Ingi í framsöguræðu sinni.

Bættar brunavarnir í leiguhúsnæði

Frumvarpið er einnig liður í að bæta brunavarnir í leiguhúsnæði og draga þannig lærdóm af þeim skelfilega eldsvoða sem varð við Bræðraborgarstíg 1 þann 25. júní 2020 og kostaði þrjá einstaklinga lífið. Frumvarpinu er þannig ætlað að koma til framkvæmda tillögum 4 og 5 í skýrslu samráðsvettvangs um brunavarnir í íbúðarhúsnæði frá því í mars á síðasta ári, með því m.a. að tryggja að leigusali geri grein fyrir brunavörnum í leigusamningnum, við upphaf leigusambands, samkvæmt niðurstöðu ástandsskoðunar.

Meðal þess sem gera þarf grein fyrir við úttekt húsnæðis og gerð leigusamnings er:

  • hvort slökkvitæki sé í íbúðinni
  • hvort það hafi verið yfirfarið af þar til bærum aðila fyrir gerð leigusamningsins
  • hvort reykskynjarar séu í öllum helstu rýmum, þar með töldum öllum svefnherbergjum, og þeir hafi verið prófaðir við úttektina
  • hvort eldvarnarteppi sé fyrir hendi í eldhúsi
  • hvort flóttaleiðir úr húsnæðinu séu fullnægjandi. 

Skoða frumvarp til breytinga á húsaleigulögum (skráning samninga og breytinga á leigufjárhæð)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum