Hoppa yfir valmynd
13. október 2022 Forsætisráðuneytið

Samstarfsyfirlýsing Íslands og Grænlands undirrituð

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Múte B. Egede, formaður landsstjórnar Grænlands, undirrituðu í dag yfirlýsingu um aukið samstarf landanna tveggja. Í yfirlýsingunni árétta ráðherrarnir vilja sinn til að efla og útvíkka tvíhliða samvinnu.

Á undanförnum árum hefur samstarf Íslands og Grænlands aukist, báðum löndunum til hagsbóta. Löndin hafa margvíslega sameiginlega hagsmuni og tækifæri auk þess að glíma við sambærilegar áskoranir í loftslags- og umhverfismálum.

Í yfirlýsingunni eru tilgreind sjö málefnasvið sem sérstök áhersla verður lögð á; viðskipti, fiskveiðar, efnahagssamstarf, loftslagsbreytingar og líffræðilegur fjölbreytileiki, jafnréttismál, menntun og rannsóknir, og menningarsamstarf.

Fram kemur í yfirlýsingunni að forsætisráðherra Íslands og formaður landsstjórnar Grænlands muni funda annað hvert ár, til skiptis í Reykjavík og Nuuk, til þess að fara yfir framgang þeirra verkefna sem tengjast samstarfsyfirlýsingunni.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra:

„Þetta er stór dagur í samskiptum Íslands og Grænlands þegar við undirritum þessa yfirlýsingu og setjum niður ákveðin áherslusvið sem við ætlum að vinna að. Ég held að í þessu felist mikil tækifæri, bæði fyrir Ísland og Grænland.“

Samstarfsyfirlýsing Íslands og Grænlands

  • Samstarfsyfirlýsing Íslands og Grænlands undirrituð - mynd úr myndasafni númer 1

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum